Ríflega tvö þúsund manns hafa boðað komu sína á samstöðufund með flóttafólki á Austurvelli á morgun. Viðburðurinn er hluti af Evrópskum degi aðgerða fyrir flóttafólk, sem haldinn verður víða um álfuna á morgun og 60 þúsund manns hafa boðað komu sína á á Facebook.
Tilgangurinn með viðburðinum á Austurvelli er að láta allt það flóttafólk sem nú flýr stríðsátök vita að staðið sé með þeim og að það sé velkomið.
Jovana Pavlović stjórnmálafræðinemi, Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir prestur og Sigríður Víðis Jónsdóttir upplýsingafulltrúi UNICEF munu ávarpa samkomuna á Austurvelli. Jovana kom til Íslands árið 1999 eftir að hafa þurft að yfirgefa heimili sitt vegna stríðsins í Júgóslavíu.
Þá hafa einnig um tvö þúsund manns skrifað undir áskorun Íslandsdeildar Amnesty International, þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að tryggja öryggi, vernd og mannréttindi flóttafólks.
„Leiðtogar allra Evrópuríkja, á Íslandi þeirra á meðal, verða að gera mun betur og tryggja vernd fyrir fleira fólk, deila ábyrgðinni betur og sýna öðrum löndum og þeim sem eru í sárustu þörfinni, samstöðu.“
Ríflega 20 sveitarfélög á landinu hafa lýst sig reiðubúin til að taka á móti flóttamönnum. Ráðherranefnd stjórnvalda fundaði í annað skiptið um flóttamannakrísuna í dag, en engin niðurstaða varð af þeim fundi.