Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir ástæðu til að gera athugasemdir við ýmis ummæli Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra í tengslum við hælisleitendur, jafnt í þingsal sem og fjölmiðlum.
„Hatursorðræða er ekki bara brot gegn þeim sem henni er beint að, hatursorðræða er beinlínis hættuleg samfélaginu.“ Þannig hóf þingmaðurinn mál sitt undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
„Óljósar fullyrðingar og óræð skilaboð inn á milli lína geta haft hughrif langt umfram tilefni,“ hélt hún áfram, og sagði staðhæfingar dómsmálaráðherra óljósar og senda þau skilaboð að fólk á flótta sem leitar hingað að skjóli frá stríði og öðrum hörmungum sé upp til hópa óheiðarlegt, sé ekki hingað komið til að vinna og vera þátttakendur í samfélaginu, og sé jafnvel hættulegt.
Fólk gengur út frá því að fólk í valdastöðum segi satt
„Þegar fólk í valdastöðum talar hefur það víðtæk áhrif. Almenningur gengur út frá því að einstaklingar sem falin hefur verið sérstök ábyrgð í þágu þjóðarinnar tali af þekkingu og heiðarleika. Fólk trúir þeim. Fólk í valdastöðum fer með fullyrðingar í viðtölum án þess að blaðamenn fari í sérstaka rannsóknarvinnu til þess að kanna hvort fullyrðingin sé sönn eða ekki, því fólk gengur almennt út frá því að fólk í valdastöðum segi satt,“ sagði Arndís Anna.
Jón mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um landamæri. Í Morgunblaðinu í dag segir dómsmálaráðherra meðal annars að borið hafi á því að hælisleitendur hafi komið til Íslands með venesúelsk vegabréf „þrátt fyrir að vera frá öðrum löndum“. Í fréttinni segir að vegabréfaviðskipti af þessu tagi séu alþjóðlegt vandamál.
Í fréttinni ræðir Jón einnig um tengsl við skipulagða glæpastarfsemi þar sem haft er eftir ráðherranum að misnotkun á flóttamannakerfinu sé mikil og að menn hafi áhyggjur af tengingu við skipulagða glæpastarfsemi. „Það er bara staðreynd,“ er haft eftir dómsmálaráðherra.
„Grafalvarlegt mál“
Arndís Anna skoraði á dómsmálaráðherra að sýna því valdi sem þeim hefur verið falið virðingu og byrja að tala skýrt og segja satt.
„Þetta snýst ekki bara um einhvern pólitískan ágreining á milli dómsmálaráðherra og annarra sem eru honum ósammála um stefnu Íslands í flóttamannamálum. Þetta er alvarlegt mál, upp á líf og dauða fjölskyldna sem er venjulegt fólk eins og við. Það að sjálfur dómsmálaráðherra landsins taki undir, og jafnvel stuðli að, orðræðu sem er til þess fallin að auka jaðarsetningu fólks sem þegar tilheyrir minnihlutahópi, er grafalvarlegt mál,“ sagði Arndís Anna.