Guðmundur Franklín Jónsson, hagfræðingur og fyrrverandi formaður Hægri grænna, hefur stofnað Facebook síðu undir fyrirsögninni: Ólafur Ragnar Grímsson forseta til 2020. Guðmundur stofnaði síðuna í morgun, og til þessa hafa 33 einstaklingar lækað síðuna.
Eins og kunnugt er situr Ólafur Ragnar Grímsson nú sitt fimmta kjörtímabil í embætti forseta Íslands. Í frægri áramótaræðu ýjaði forsetinn að því að hann myndi ef til vill ekki sitja út kjörtímabilið, en í nýlegu viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni tók hann af allan vafa um það að hann ætlar að sitja út kjörtímabilið sem rennur sitt skeið á næsta ári. Aðspurður um hvort hann hyggist bjóða sig fram í sjötta sinn í lok kjörtímabilsins, en þá mun hann hafa gegnt stöðu forseta Íslands í tuttugu ár, útilokaði Ólafur Ragnar Það ekki.
Ólafur Ragnar besti kosturinn
Guðmundur Franklín, sem fékk um 18.000 læk á Facebook síðu sem hann stofnaði um árið þar sem hann hvatti forsetann til að samþykkja ekki Iceasave-samninginn, segir tilgang síðunnar sem hann stofnaði í dag vera að skora á Ólaf Ragnar að bjóða sig fram einu sinni enn.
„Mér finnst eins og fólk sé búið að afskrifa Ólaf Ragnar, en hann er að sjálfsögðu ennþá kandídat númer eitt, og er hagkvæmasti kosturinn. Að sjálfsögðu koma margir til greina eins og til dæmis Jón Gnarr, Egill Helgason, Tinna Gunnlaugsdóttir, Þórarinn Eldjárn og fleiri, sem er allt afbragðsfólk,“ segir Guðmundur Franklín í samtali við Kjarnann. Aðspurður um hvernig honum lítist á Jón Gnarr, sem hefur verið orðaður við forsetaframboð, svaraði Guðmundur: „Mér líst vel á Jón Gnarr, hans tími mun koma.“
Í síðustu Alþingiskosningum kom í ljós að Guðmundur var ekki á kjörskrá á Íslandi og þar með ekki kjörgengur í kosningunum. Málið var hið vandræðalegasta fyrir þáverandi formann Hægri grænna sem segir í samtali við Kjarnann að hann sé nú kominn á kjörskrá.