Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) nýtur stuðnings 54 prósenta skoskra kjósenda og mun fá 57 þingsæti í bresku þingkosningunum sem fram fara eftir tíu daga, samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Þingsæti Skota í Westminster, þinginu í London, eru 59 talsins.
Það verða því aðeins tvö þingsæti til skiptanna fyrir hina flokkanna, og Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar munu fá sitthvort sætið, samkvæmt könnuninni. Aðrir flokkar komast ekki á blað, en í Bretlandi eru einmenningskjördæmi. Allt útlit er fyrir að Skoski þjóðarflokkurinn verði því mjög áhrifamikill í breska þinginu eftir kosningar, enda virðist ekki líklegt að neinn flokkur nái meirihluta þingsæta. Samkvæmt nýjustu könnunum sem Guardian hefur látið gera á landsvísu fengi Íhaldsflokkurinn 274 sæti og Verkamannaflokkurinn 270. 326 sæti þarf til að ná meirihluta í þinginu.
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins. MYND: EPA
Samkvæmt könnuninni, sem fyrirtækið TNS gerði og skoska sjónvarpsstöðin STV greinir frá, var stuðningur við Verkamannaflokkinn 22 prósent, við Íhaldsmenn 13 prósent og stuðningur við Frjálslynda demókrata 6 prósent. UKIP, breskir þjóðernissinar, og græningjar, fengju tvö prósent hvor.
67 prósent aðspurðra sögðust vissir um að þeir myndu kjósa í kosningunum þann 7. maí næstkomandi. Það er hærra hlutfall en mælist að meðaltali í Bretlandi, þar sem 62 prósent eru viss um að nýta kosningaréttinn.
„Fleiri og fleiri einstaklingar setja traust sitt á SNP til að láta rödd Skotlands heyrast í Westminster,“ segir Angus Robertsson, frambjóðandi SNP. „Þessi könnun bendir einnig til þess að stuðningur við SNP komi frá fólki sem kaus gegn sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem og þeim sem kusu með sjálfstæði - þar sem fólk gerir sér grein fyrir því að hópur þingmanna frá SNP mun gera Skotland sterkara í þinginu.“ Hann sagði jafnframt að könnunum sem þessum væru tekið fagnandi, en að ekkert væri sjálfgefið og áfram yrði unnið að því að vinna traust kjósenda um allt landið.
Tom Costley, forstjóri kannanafyrirtækisins TNS Scotland, segir við STV að Nicola Sturgeon og Skoski þjóðarflokkurinn virðist bara verða sterkari og sterkari. Fólk í Skotlandi virðist vera áhugasamara um stjórnmál eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði síðastliðið haust.