Nýlega lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram tillögur um nokkuð viðamiklar breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Meginbreytingartillögurnar eru að lægra skattþrep kerfisins verði hækkað úr 7% í 12%, hærra þrepið lækkað úr 25.5% í 24%, og almenn vörugjöld verði felld niður. Samhliða þessu er lagt til að barnabætur hækki um 13% en skerðist hraðar fyrir tekjuháar fjölskyldur.
Þegar á heildina er litið eru þessar tillögur mikilvægt skref í rétta átt í skattamálum. Breytingarnar eru skref í átt að hagkvæmara skattkerfi. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir land eins og Ísland – þar sem skattar eru háir – að skattkerfið sé ekki óþarflega óhagkvæmt. Grunnhugsunin, þegar kemur að því að lágmarka óhagræðið sem hlýst af sköttum, er að skattar séu flatir og skattstofninn sem stærstur.
En hvað með tekjulág heimili?
En hagkvæmni er ekki eina markmiðið þegar kemur að hönnun skattkerfisins. Það skiptir einnig máli (að flestra mati) að hugað sé að því hver borgar skattana. Mörgum er sérstaklega umhugað um að skattkerfið sé notað til þess að bæta hag lágtekjufólks. Þar sem matur vegur þyngra í heildarútgjöldum lágtekjufólks en þeirra sem hafa hærri tekjur telja sumir að skattar á mat eigi að vera lágir. Vandinn er að lágur matarskattur er óhagkvæm leið til þess að bæta hag þeirra sem verst eru settir. Hækkun persónuafsláttarins eða lækkun lægri þrepa tekjuskattskerfisins eru hagkvæmari leiðir til þess að ná sama markmiði.
Þegar virðisaukaskattur á mat er lækkaður lækka vissulega skattar þeirra lægst launuðu. Skattar þeirra sem eru með hærri tekjur lækka hins vegar ennþá meira þar sem þeir eyða meira fé í mat en láglaunafólk. Af þessum sökum er lækkun virðisaukaskatts á mat dýr og óskilvirk leið til þess að bæta hag lágtekjufólks. Mun ódýrari og skilvirkari leið væri hækkun persónuafsláttarins.
Síðustu daga hafa margir sem bera hag lágtekjufólks fyrir brjósti mótmælt tillögum Bjarna Benediktssonar um hækkun matarskattsins. Þetta fólk er ef til vill með hjartað á réttum stað en mótmæli þess eru illa ígrunduð. Í stað þess að mótmæla grunnbreytingunni ættu þessir aðilar að þrýsta á Bjarna að nota stærri hluta þess fjár sem aflað er með hærri matarskatti til þess að hækka persónuafsláttinn. Með því móti væri unnt að bæta hag lágtekjufólks mun meira fyrir sama pening.
Rétti mælikvarðinn?
Í umræðunni um þessar breytingar hafa ýmsir bent á að sáralítill munur er á vægi matvæla í neyslu heimila með lágar tekjur og heimila með háar tekjur. Árin 2010-2012 var vægi matvæla í neyslu þess fjórðungs heimila sem var með lægstar tekjur 14,7% á meðan vægi matvæla var 14,5% hjá þeim fjórðungi heimila sem hæstar tekjur hafði. Þessar tölur hafa verið notaðar til þess að færa rök fyrir því að sáralitlar mótvægisaðgerðir, í formi t.d. hærri persónuafsláttar, þurfi til þess að tryggja að hagur heimila með lágar tekjur batni við breytingarnar (Ég hef sjálfur gerst sekur um slíka röksemdafærslu).
Vandinn er að þetta eru ekki alveg réttar tölur til þess að nota í þessu samhengi. Ástæða þess er að tekjur heimila sveiflast upp og niður og tekjur yfir skamman tíma gefa því ekki endilega rétta mynd af því hversu vel sett heimili eru. Neysla heimila er betri mælikvarði en tekjur í þessu samhengi þar sem neysla ræðst ekki aðeins af tekjum sama árs heldur einnig af væntingum um tekjur í framtíðinni.
Vægi matvæla hjá þeim fjórðungi heimila sem var með lægst útgjöld á árunum 2010-2012 var 17,3% en einungis 14,0% hjá þeim fjórðungi heimila sem var með hæst útgjöld. Á þennan mælikvarða er því talsvert meiri munur á útgjaldamynstri þeirra best settu og þeirra verst settu. Til þess að tryggja að hagur þeirra síðarnefndu batni þarf því að ráðast í meiri mótvægisaðgerðir í formi t.d. hærri persónuafsláttar en tölurnar sem mest hafa verið notaðar gefa til kynna. Ég vil því hvetja Bjarna Benediktsson til þess að bæta hækkun á persónuafslættinum við tillögur sínar. Ef hann gerir það verða engin haldbær rök gegn þeim breytingum sem hann leggur til.
Heimili sem safna skuldum
Alþýðusamband Íslands hefur vakið athygli á því að hjá sumum tekjulágum heimilum er neysla langt umfram tekjur. Þetta á til dæmis við um námsmenn sem vænta þess að hafa mun hærri tekjur í framtíðinni og taka því lán til þess að jafna neyslu sína yfir tíma. Hjá slíkum heimilum eru útgjöld til matarkaupa mun stærra hlutfall af tekjum en hjá fólki um miðjan aldur sem er almennt að greiða niður námslán og safna í sjóð til eldri ára.
Alþýðusambandið virðist telja að þetta geri það að verkum að tillögur Bjarna komi sérstaklega illa niður á þessum heimilum. Þetta er ekki rétt. Slík heimili eyða einnig mun meiru, sem hlutfall af tekjum, í vörur sem eru í hærra skattþrepinu. Þau hagnast því meira af lækkun hærra þrepsins (og afnámi vörugjalda) og tapa meira á hækkun lægra þrepsins. Hvort þau koma betur eða verr út þegar á heildina er litið ræðst af vægi matar í heildarútgjöldum, ekki hlutfalli matarútgjalda í heildartekjum. Þær tölur sem koma fram í minnisblaði ASÍ frá 9. september 2014, sem vakið hafa talsverða athygli og vitnað hefur verið til á Alþingi, eru því ekki rétti mælikvarðinn til þess að leggja mat á nauðsynlegt umfang mótvægisaðgerða fyrir þau heimili sem verst eru sett fjárhagslega.