Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leggst alfarið gegn skuldaniðurfellingaráformum stjórnvalda en hann hefur skilað nefndaráliti í efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem hann rökstyður þá skoðun sína. Skuldaniðurfellingaráform stjórnvalda, þar sem verðtryggð fasteignalán verða lækkuð með framlagi úr ríkissjóði, eru nú til meðferðar í þinginu og hefur efnahags- og viðskiptanefnd haft málið til meðferðar að undanförnu.
Í áliti Péturs, sem birt var á vef Alþingis fyrir stundu, kemur fram að hann telji aðgerðirnar óréttlátar, ómarkvissar og ekki forsvaranlegar í ljósi skuldastöðu ríkissjóðs.
Lokorðin í áliti Péturs eru þessi: „Ýmislegt mætti gera við 80 milljarða kr. Til dæmis mætti lækka skuldir ríkissjóðs um þá fjárhæð og grynnka á vaxtagreiðslum, líklega um 3 milljarða kr. árlega eftir fjögur ár. Svo mætti fara blöndu af skuldalækkun og skattalækkun vegna þess hve brýnt er að draga til baka skattahækkanir fyrri ríkisstjórnar. Lækka mætti skuldir ríkissjóðs um 40 milljarða kr., 10 milljarða kr. á ári. Mögulegt væri að lækka fjármagnstekjuskatt í úr 20% í 15% en sú aðgerð mundi kosta 5 milljarða kr. á ári, þ.e. 20 milljarða kr. á fjórum árum. Með því væri dregið úr refsingu fyrir að sýna sparnað og ráðdeild, en á þessum tímapunkti er einmitt mikilvægt að hvetja til sparnaðar. Tryggingagjald er skattur á laun og atvinnu og hindrar sköpun atvinnu. Lækka mætti það um 0,5% sem kostaði um 5 milljarða kr. á ári og mundi örva atvinnulífið til að skapa ný störf. Aðrir kunna að sjá möguleika til að hækka framlög til leigjenda, atvinnulausra og til heilbrigðiskerfisins. Hér er um miklar upphæðir að ræða af skatttekjum ríkissjóðs. Með hliðsjón af stöðu ríkissjóðs er ekki forsvaranlegt að afhenda þær einhverjum sem ekki þurfa á fénu að halda.“
Sjá má álit Péturs, þar sem hann gagnrýnir niðurfellingaráform stjórnvalda harðlega, hér.