Í lok september síðastliðins höfðu skuldir íslenskra fyrirtækja dregist saman um 5,5 prósent að raunvirði á síðustu tólf mánuðum. Þar skipti mestu máli að gengi íslensku krónunnar styrktist umtalsvert á tímabilinu, en rúmlega þriðjungur skulda íslenskra fyrirtækja er í erlendum gjaldmiðlum.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Seðlabanki Íslands sendi fjármálastöðugleikanefnd 3. desember síðastliðinn og hefur verið birt á vef bankans.
Þar segir enn fremur að sé leiðrétt fyrir gengis- og verðlagsáhrifum mældist 0,1 prósent vöxtur á skuldum fyrirtækja. „Nýjar lánveitingar til fyrirtækja hafa aukist lítillega á síðustu mánuðum en enn virðist eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfé vera takmörkuð. Borið hefur á auknum tilfærslum fyrirtækjalána frá bankakerfinu til annarra lánveitenda. Umfangið er þó enn fremur lítið.“
Lánuðu frekar til íbúðarkaupa
Kerfislega mikilvægu bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki hafa ekki verið að lána sem neinu nemur til fyrirtækja frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Þess í stað hafa þeir nýtt stóraukið svigrúm til útlána, sem fékkst með tímabundnu afnámi sveiflujöfnunarauka, til að lána til íbúðarkaupa einstaklinga. Tólf mánaða raunvöxtur skulda heimilanna var 6,5 prósent í lok september.
Í sumar virtist sem að útlánagleði banka til fyrirtækja væri að glæðast, en í júlímánuði lánuðum bankar landsins 15,6 milljarða króna til slíka. Ástandið var þó skammvinnt og næstu þrjá mánuði á eftir drógust útlán banka til fyrirtækja saman um rúmlega níu milljarða króna.
Vaxtamunur gæti aukist á ný
Vaxtamunur er munurinn á þeim vöxtum sem bankarnir greiða fólki og fyrirtækjum fyrir innlán sem þau geyma hjá þeim og vöxtunum sem þeir leggja á útlán. Bankarnir hafa stærstan hluta hagnaðar síns af honum.
Í áðurnefndu minnisblaði Seðlabanka Íslands segir að vaxtamunur banka hafi minnkað í kjölfar þess að bankinn hóf skarpa lækkun stýrivaxta í fyrravor. Sú lækkun var þó ekki stórkostleg. Til að mynda var vaxtamunur stóru bankanna þriggja var á bilinu 2,4-2,7 prósent á fyrri helmingi yfirstandandi árs, sem er mjög svipað og hann var á árinu 2020, þegar hann var 2,7 prósent að meðaltali. Til samanburðar er vaxtamunur hjá stórum norrænum bönkum undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kemur í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja.
Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti nokkuð skarpt síðustu mánuði, úr 0,75 prósent í maí í tvö prósent nú. Í minnisblaði Seðlabankans til fjármálastöðugleikanefndar segir að „vaxtamunur bankanna gæti aukist á ný samhliða hækkun á meginvöxtum Seðlabankans sem ætti að styrkja stöðu bankanna enn frekar.“