Skuldir íslenska ríkisins hafa lækkað um 309 milljarða króna á núvirði frá árinu 2012. Þær munu minnka um 54 milljarða krona eftir uppkaup ríkissjóðs á eigin bréfum sem útgefin voru í bandaríkjadölum. Þetta kemur fram í áætlun Lánamála ríkisins sem sagt er frá í Morgunblaðinu.
Þar segir að eftir uppgreiðslu skuldabréfanna verði heildarskuldir ríkisins 1.403 milljarðar króna, eða 63,8 prósent af vergri landsframleiðslu, og lækki um 2,5 prósent. Sérstaklega er þó tekið fram að spá Seðlabanka Íslands um verga landsframleiðslu árið 2015 virðist nokkuð rífleg og hún mun geta haft áhrif á lækkun skulda.
Skuldir íslenska ríkisins voru 1.712 milljarðar króna á núvirði í maí 2012. Þær hafa því lækkað um 309 milljarða króna síðan þá, eða um 940 þúsund krónur á hvern Íslending.
Losun hafta og greiðsla stöðugleikaskilyrða minnkar skuldir
Til viðbótar er viðbúið að skuldir ríkisins verði greiddar niður umtalsvert í kjölfar þess að slitabú föllnu bankanna greiða hin svokölluðu stöðugleikaskilyrði, eða að á þau verði lagður stöðugleikaskattur nái þau ekki að mæta skilyrðunum fyrir áramót. Stærstu kröfuhafar Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa allir samið við stjórnvöld um að mæta skilyrðunum en hversu hárri upphæð það muni skila í ríkissjóð liggur ekki fyrir. Í Morgunblaðinu þann 9. júní, daginn eftir að aðgerðir í afnámi hafta voru kynntar á fundi í Hörpu, kom fram í Morgunblaðinu að þær gætu skilað 698 milljörðum króna.
Samkvæmt útreikningum Kjarnans, sem miða við þau skilyrði sem liggja til grundvallar samningnum í dag og hafa verið birt á heimasíðu fjármálaráðuneytisins, verður sú upphæð hins vegar á bilinu 300 til 400 milljarðar króna. Takist slitabúunum ekki að mæta skilyrðunum fyrir árslok, meðal annars með því að ljúka nauðasamningum sínum, mun 39 prósent stöðugleikaskattur falla á allar eignir þeirra. Hann myndi skila mun hærri tölu í ríkissjóð.