Skuldastaða flestra sveitarélaga hérlendis versnaði til muna í fyrra, þar sem nýir útreikningar um meiri lífeyrisskuldbindingar vegna hækkandi meðalaldurs voru bókfærðar þá. Bæjarstjóri Ísafjarðar hefur kallað eftir því að ríkisvaldið stígi inn til að létta þessum auknu álögum af sveitarfélögum og Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir lítinn tímafrest sem sveitarfélögin fengu til að bregðast við þessum útreikningum.
Gamlir útreikningar en nýlega samþykktir
Umræddir útreikningar voru fyrst gefnir út árið 2015 af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga, en þær miða við spár um þróun dánartíðni á næstu áratugum í stað dánartíðni undanfarinnar ára.
Á þeim tíma ákvað fjármálaráðherra að staðfesta þær ekki og þurftu því sveitarfélögin ekki að taka tillit til þeirra í eigin lífeyrisskuldbindingum. Hins vegar ákvað Reykjavíkurborg að gera það á þeim tíma, en lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins hækkuðu því um 6,5 milljarða króna.
Fjármálaráðuneytið skipti svo um skoðun rétt fyrir síðustu jól, en þann 22. desember í fyrra var tilkynnt að nýju útreikningarnir voru samþykktir, sem leiddi til þess að sveitarfélögin þurftu að bókfæra þau í sínum ársreikningum.
Hækkunin mikill skellur
Heilt yfir er búist við því að lífeyrisskuldbindingar hækki um fimm prósent vegna þessara nýju útreikninga, en hækkuninni er þó ójafnt dreift á milli sveitarfélaga.
Fréttamiðillinn Bæjarins besta greindi frá því fyrr í vikunni að lífeyrisskuldbindingar Ísafjarðarbæjar hækkuðu langt umfram áætlanir árið 2021 vegna samþykktar á nýju útreikningunum. Samkvæmt fjármálastjóra bæjarfélagsins aukast skuldir þess um 390 milljónir króna vegna þeirra, úr 1,89 milljörðum króna í 2,2 milljarða króna. Þetta jafngildir 17 prósenta hækkun.
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, segir hækkunina vera mikinn skell fyrir bæjarfélagið í samtali við Kjarnann. Hann bætir þó við að skuldaaukningin sé ekkert einsdæmi hjá Ísafjarðarbæ, önnur sveitarfélög finni einnig fyrir henni. Í samtali við Bæjarins besta segir að hann að það væri ekki óeðlilegt að ríkisvaldið horfi til þess að létta þessum nýtilkomnu álögum af sveitarfélögum.
Kann að vera ágætt að taka skellinn núna
Sigurður Ármann Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, greinir frá áhrifum nýrra lífeyrisútreikninga á fjárhag sveitarfélaganna í minnisblaði sem hann sendi nýlega frá sér. Samkvæmt því gefst sveitarfélögum ekki kostur á frestun á að taka tillit til þessara útreikningana, svo lífeyrisskuldbindingarnar hækka strax.
Í samtali við Kjarnann segir Sigurður þó að hann telji ólíklegt að þessi aukna skuldbinding muni leiða til skertrar þjónustu hjá sveitarfélögunum, sem hafi heilt yfir skilað góðum rekstri á síðasta ári. Einnig mætti segja að þetta sé að einhverju leyti heppileg tímasetning til að taka tillit til þessara breyttu útreikninga núna, þar sem fjármálareglum sveitarfélaganna hefur verið tímabundið vikið til hliðar til ársins 2026.