Skúli Magnússon, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur, er nýr umboðsmaður Alþingis. Þingmenn kusu hann í dag með 49 atkvæðum til að gegna starfinu frá 1. maí 2021 og til fjögurra ára, eða til 30. apríl 2025. Fjórir greiddu ekki atkvæði. Ekki er hægt að greiða atkvæði gegn skipun þeim sem tilnefndur er sem umboðsmaður þar sem Nei-hnappur þingmanna var gerður óvirkur í atkvæðagreiðslunni.
Forsætisnefnd samþykkti í morgun einróma að tilnefna Skúla í embætti og engar aðrar tilnefningar bárust. Hann var því einn í kjöri.
Fjórir gáfu kost á sér í embættið þegar ljóst var að það myndi losna á þessu ári. Auk Skúla voru það Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi dómari, Ástráður Haraldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, og Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari við héraðsdóm Reykjavíkur og settur umboðsmaður.
Áslaug dró síðar til baka umsókn sína og sagði að loknu vel ígrunduðu máli hafi störf hennar, bakgrunnur og hæfni ekki verið að sem leitast var eftir fyrir starfið.
Undirnefnd forsætisnefndar, sem í sitja Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón S. Brjánsson og Bryndís Haraldsdóttir, gekk frá skipan ráðgjafarnefndar, sem var undirnefndinni til aðstoðar við að gera tillögu til forsætisnefndar um einstakling sem forsætisnefnd tilnefnir við kosningu í embættið.
Eftirtaldir sérfræðingar skipuðu ráðgjafarnefndina: Helgi I. Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem var jafnframt formaður nefndarinnar, Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte, og Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar var Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis.