Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi WOW air, segir að Ísland muni tapa á milli 100 og 200 milljörðum króna á seinagangi íslenskra stjórnvalda í innviðauppbyggingu í ferðaþjónustu. Keflavíkurflugvöllur sé þegar sprungin og frá árunum 2017 eða 2018 þurfi flugrekendur að draga verulega úr vexti sínum vegna þess að flugvöllurinn geti ekki tekið á móti fleiri farþegum. Skúli segir uppbyggingu í Hvassahrauni ekki raunhæfa og telur að það verði að hefja myndarlega uppbyggingu í Keflavík til að takmarka það tjón sem þegar er ljóst að verði vegna aðgerðarleysis stjórnvalda. Þetta kemur fram í viðtali við Skúla í ViðskiptaMogganum í dag.
Of seint að forða tjóninu
Skúli segir of seint að forða því tjóni sem seinagangur viðað mæta hinni miklu fjölgun sem orðið hefur á ferðamönnum hérlendis á síðustu misserum. Hann segir stærstu hindrun ferðaþjónustunar á Íslandi ekki vera samkeppni, skort á tækifærum eða fólki, staðsetningu eða getuleysi til að taka við ferðamönnum og dreifa þeim um landið. Stærsta hindrunin sé Keflavíkurflugvöllur og stjórnsýslan á Íslandi. "Það að við séum enn að vandræðast með áætlanir um fjölgun ferðamanna sem byggjast á einhverjum skýrslum frá McKinsey og Boston Consulting Group er alveg hræðilegt. Við erum að vasast með farþegaspár frá þessum ágætu herramönnum, sem fengu stórfé til að búa til sín gögn, sem urðu úreltar innan tólf mánaða. Það sem þeir áætluðu að yrði fimm ára vöxtur var orðið að veruleika innan árs. Því miður hafa innlendar spár verið lítið betri og enn er það þannig að farþegaspár Samtaka ferðaþjónustunnar og Isavia hafa verið allt of varkárar sem hægir á öllum fjárfestingum. Þetta var skiljanlegt að einhverju leyti fyrir nokkrum árum en er óafsakanlegt í dag."
Miklu stærra en tap sjávarútvegarins vegna Rússlands
Skúli bendir á að allt hafi farið á hliðina í íslensku samfélagi nýverið þegar sjávarútvegsfyrirtæki landsins sáu fram á að missa nokkra milljarða króna í tekjur vegna viðskiptabanns sem Rússland setti á íslensk matvæli. Þá hafi verið skipuð neyðarnefnd og rætt um að greiða sjávarútvegsfyrirtækjunum miskabætur. Staðan í ferðaþjónustunni sé hins vegar þannig að Keflavíkurflugvöllur sé sprungin og í nánunustu framtíð muni WOW og aðrir flugrekendur þurfa að draga verulega úr vexti sínum þar sem flugvöllurinn getur ekki tekið við fleirum. "Þá þurfum við að bíða eftir nýjum velli sem verður vonandi tilbúinn 2021. Tap Íslands af þessum seinagangi verður ekki minna en 100 milljarðar og sennilega nær 200 milljörðum. Það er ótækt að þetta sé á höndum margra aðila í stjórnsýslunni og ríkisstjórnin verður að grípa til aðgerða til að forða frekara tjóni.
Sem dæmi þá er það í engu tilliti raunhæft að ætla sér að hefja uppbyggingu á nýjum flugvelli mitt á milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Það verður að byggja upp í Keflavík og gera það myndarlega. Að ráðast í það að reisa nýjan völl mun kosta miklu meiri peninga og það mun taka svo langan tíma að tjónið verður löngu orðið að veruleika þegar hann verður tekinn í gagnið."
Stóriðjustefnan glórulaus
Skúli bendir á að ferðaþjónusta sé orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Á næsta ári megi búast við að gjaldeyristekjur vegna hennar verði vel yfir 400 milljarðar króna á ári. Til samanburðar þá eru gjaldeyristekjurnar af sjávarútveginum rúmir 240 milljarðar og heildartekjur allrar stóriðju í landinu er um 230 milljarðar. Ferðaþjónustan er orðin miklu stærri hér á landi en öll álver, kísilver og járnblendi saman lögð.
Skúli hefur verið mjög gagnrýninn á frekari stóriðjuuppbyggingu. Hann hafi haft samúð með því þegar stóriðja var byggð upp hérlendis á sjöunda áratugnum en nú sé staðan gjörbreytt. "Núna er stóriðjan orðin mjög stór og hún hefur verið byggð upp á ódýrri raforku og slakri umhverfispólitík. Nú er staðan hins vegar breytt og engin ástæða til að halda áfram á þeirri vegferð. Stóriðjustefnan er búin að malla svo lengi í kerfinu að það er kominn mikill pólitískur þrýstingur. Það er endalaust af verkfræðistofum, lögfræðistofum, fjármálastofnunum og allskyns sérfræðingum sem hafa hag af því að viðhalda þessari nálgun. Þetta er hins vegar glórulaust.
Ég fullyrði að hver sá sem gæfi sér tíma til að kynna sér þetta, meira að segja óháð náttúruverndarsjónarmiðum, myndi sjá að þetta er glórulaus nálgun og við erum að fórna mun stærri hagsmunum og tekjumöguleikum fyrir minni. Enn er helsta réttlætingin fyrir áframhaldandi stóriðju að hún skapi störf en staðreyndin er sú að atvinnuleysi er í lágmarki og það eina sem mun gerast er að við munum þurfa að flytja inn þúsundir ómenntaðra farandverkamanna, sem skilja lítið sem ekkert eftir sig, til að vinna þessi láglaunastörf. Það er sorglegt að það séu enn þá ráðherrar sem fullyrða það að það sé forsenda fyrir áframhaldandi hagvexti á Íslandi að það sé stofnað til nýrrar stóriðju og fleiri virkjanir reistar."