Frosti Sigurjónsson, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur skilað skýrslu um endurbætur á íslenska peningakerfinu til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.
Í skýrslunni, sem var unnin að beiðni forsætisráðherra, kemur meðal annars fram að íslenskir viðskiptabankar hafi búið til mun meira af peningum en íslenska hagkerfið þurfi á að halda. Seðlabankanum hafi ekki tekist að hafa hemil á peningamyndun bankanna með hefðbundnum stjórntækjum sínum. Í skýtslunni eru skoðaðar endurbætur á peningakerfinu. Niðurstaða hennar er sú að svokallað þjóðpeningakerfi geti verið nothæfur grundvöllur að endurbótum á peningakerfinu.
Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu er haft eftir Sigmundi Davíð að hann sé mjög ánægður með að skýrslan sé komin út. "Ég vænti þess að hún verði mikilvægt innlegg í þá nauðsynlegu umræðu sem framundan er, hér sem annars staðar, um peningamyndun og stjórnun peningamála.‟
Hægt er að lesa samantekt úr skýrslunni á íslensku hér.
Hvað er þjóðpeningakerfi?
Í skýrslunni segir að með þjóðpeningakerfi verði öll veltiinnlán, sem nú eru hjá innlánsstofnunum, færð í Seðlabankann á svonefnda færslureikninga. "Peningamagnið í landinu væri þar með hvorki háð greiðsluhæfi einstakra innlánsstofnana né útlánahegðun þeirra. Innstæður á færslureikningum væru ávallt aðgengilegar, án áhættu og bæru því ekki vexti. Innlánsstofnanir myndu áfram bjóða upp á bundna innlánsreikninga, svokallaða fjárfestingareikninga (e. Investment Accounts) en enga reikninga sem hægt væri að taka út af fyrirvaralaust.
Með þessu er komið í veg fyrir að innlánsstofnanir geti búið til ígildi peninga. Fjárfestingareikningar væru bundnir í fyrirfram ákveðinn tíma eða úttektir af þeim háðar uppsagnarfresti. Reikningarnir gætu verið bundnir til mismunandi langs tíma og borið mismunandi áhættu og vexti. Seðlabankinn myndi skapa peninga í nægu magni til að mæta þörfum vaxandi hagkerfis, að teknu tilliti til markmiðs um stöðugt verðlag.
Ákvarðanir um peningamyndun eru teknar af sjálfstæðri peningamagnsnefnd sem væri óháð stjórnvöldum með sama hætti og núverandi peningastefnunefnd. Nýir peningar sem Seðlabankinn býr til eru færðir á færslureikning ríkissjóðs. Um leið eignast Seðlabankinn jafn háa kröfu á ríkissjóð sem ber enga vexti og er án afborgana. Í stað þess að lána nýja peninga í umferð eins og bankar gera í dag, geta stjórnvöld sett nýja peninga í umferð með því að auka ríkisútgjöld, lækka skatta, lækka ríkisskuldir eða dreifa peningunum jafnt á skattgreiðendur eða hvern íbúa í landinu.
Auk þess gæti Seðlabanki búið til peninga til að lána bönkum sem aftur myndu lána þá til fyrirtækja sem ekki eru í fjárfestinga eða fjármálastarfsemi. Peningamagnsnefndin tekur eingöngu ákvörðun um hvort auka skuli peninga en hún getur ekki ákveðið til hvaða verkefna þeim er varið. Alþingi ákveður til hvaða verkefna nýjum peningum er varið, en getur ekki ákveðið hvort búnir séu til nýjir peningar. Þannig er dregið úr hættu á að peningavaldið sé misnotað. En hvað þyrfti að auka peningamagn mikið á ári? Ef miðað er við 2% hagvöxt, 2% verðbólgu og upphaflegt peningamagn 500 milljarða króna, má áætla að bæta þyrfti við 20 milljörðum króna á hverju ári. Það er há fjárhæð en þó innan við 3% af núverandi fjárlögum."
Valdið til að skapa aðskilið frá valdinu til að ráðstafa
Í samantekt skýrslunnar er farið yfir kosti þjóðpeningakerfisins umfram brotaforðakerfið. Þar segir meðal annars að í þjóðpeningakerfi sé peningamagni stýrt af seðlabankanum og einkabankar geta ekki aukið peningamagn stjórnlaust eins hingað til."Seðlabankinn mun auka peningamagnið í takt við vöxt og þarfir hagkerfisins og í samræmi við markmið um stöðugt verðlag. Valdið til að skapa peninga er aðskilið frá valdinu til að ráðstafa nýjum peningum. Með því að skipta peningavaldinu upp er dregið úr hættu á að það verði misnotað í þágu sérhagsmuna."
Ef valið yrði að skipta yfir í þjóðpeningakerfi gætu innlánsstofnanir frá fyrsta degi ekki lengur búið til peninga. Það myndi hins vegar taka mörg ár að skipta út því peningamagni sem þeir hafa skapað fyrir þjóðpeninga. "Við umbreytingu í þjóðpeningakerfi eru allir veltureikningar og hlaupareikningar í innlánsstofnunum (nú um 450 milljarðar) fluttir yfir á færslureikninga sem geymdir eru í Seðlabankanum. Um leið eignast Seðlabankinn jafn háa kröfu á innlánsstofnanirnar, sem kölluð er umbreytingarkrafa. Innlánsstofnanir munu endurgreiða Seðlabankanum umbreytingarkröfuna á álíka löngum tíma og þeir fá sín útlán endurgreidd, líklega á 10 árum. Umbreytingarkrafan gæti borið svipaða vexti og innlánsstofnarnirnar greiða innstæðuhöfum veltuhlaupareikninga í dag.
Í hvert sinn sem innlánstofnanir greiða af umbreytingakröfunni minnkar peningamagn í umferð. Seðlabankinn þarf því að búa til nýja þjóðpeninga jafn óðum til að halda peningamagninu stöðugu líklega 45 milljarða króna á ári í 10 ár. Því peningamagni gæti Seðlabankinn komið í umferð með því að greiða upp ríkisskuldir eða með því að fela stjórnvöldum að nota þær aðferðir sem það hefur til að setja nýja peninga í umferð. Ef Seðlabankinn teldi æskilegt að minnka peningamagn í umferð gæti hann það með því að búa til minna af þjóðpeningum," segir í skýrslunni.