Vinna við skýrslu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um niðurstöður höfuðstólslækkunar húsnæðislána er á lokastígi og vonast er til að hægt verði að leggja hana fyrir Alþingi á næstunni. Ekki er ólíklegt að það verði í næstu viku. Þetta segir Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Upplýsingar í kynningu takmarkaðar
Þegar útfærsla á skuldaniðurfærslum ríkisstjórnarinnar var kynnt í lok síðasta árs var það gert með glærukynningu. Í þeirri glærukynningu vantaði mikið af upplýsingum um skiptingu niðurfærsluupphæða á milli tekju- og aldurshópa. Það vantaði líka upplýsingar um frádráttarliði og hvernig upphæðin sem rynni úr ríkissjóði vegna aðgerðanna, alls um 80 milljarðar króna, myndi dreifast á mismunandi landssvæði.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, lagði því fram fyrirspurn í 15 liðum um málið á Alþingi þann 11. nóvember 2014.
Bjarni svaraði fyrirspurn hennar tæpum mánuði síðar með því að svara ekki þeim spurningum sem Katrín hafði lagt fyrir hann. Þess í stað sagði í svarinu að ráðherrann hyggðist leggja „yrir Alþingi ítarlega skýrslu um niðurstöður höfuðstólslækkunar húsnæðislána þar sem m.a. verður fjallað um þau atriði sem spurt er um í þessari fyrirspurn. Skýrslan mun byggjast á stöðu úthlutunar eins og hún verður við lok samþykkisfrests á ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar en eins og er vantar of mikið upp á endanlegar niðurstöður til að skynsamlegt sé að draga nægilega marktækar ályktanir um þetta mál. Reiknað er með því að skýrslan verði tilbúin og kynnt á vorþingi“.
Leiðréttingin, skuldaniðurfellingaraðgerð ríkisstjórnarinnar, snýr um að láta um 80 milljarða króna renna úr ríkissjóði í niðurgreiðslur á húsnæðislánum, eða í sérstakan persónuafslátt, hluta þeirra Íslendinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009.
Fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur frá 11. nóvember 2014:
- Hvernig skiptist heildarupphæð þeirrar fjárhæðar sem varið verður til lækkunar verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga milli höfuðstólslækkunar og frádráttarliða?
- Hverjir eru frádráttarliðirnir og hver er skiptingin milli þeirra í upphæðum?
- Hvert er heildarhlutfall beinnar höfuðstólslækkunar, þ.e. lækkunar höfuðstóls að undanskildum frádráttarliðum, af verðtryggðum fasteignaveðlánum
- Hve mikið hafa verðtryggð lán hækkað frá árinu 2007?
- Hve mikið hefði 20% skuldaniðurfærsla lækkað verðtryggð fasteignaveðlán heimilanna?
- Hve mikið hefði 250 milljarða kr. skuldaniðurfærsla lækkað verðtryggð fasteignalán heimilanna?
- Hver væri upphæð leiðréttingar ef hún miðaðist við að verðtryggð húsnæðislán væru færð niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010?
- Hver væri upphæð leiðréttingar ef hún miðaðist við að verðtryggð húsnæðislán væru færð niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 2,5% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010?
- Hversu margir umsækjendur um skuldaniðurfærslu fá enga beina höfuðstólslækkun?
- Hversu margir framteljendur sem greiddu auðlegðarskatt fá niðurfærslu?
- Hversu há upphæð rennur til þeirra framteljenda sem borga auðlegðarskatt?
- Hvernig dreifist heildarupphæðin á tekjubil hvers tíunda hluta fyrir sig? Hver er fjöldi framteljenda á bak við hvert tekjubil?
- Hve stór hluti heildarupphæðarinnar fer til fólks með tekjur yfir miðgildi tekna?
- Hvernig dreifist heildarupphæðin eftir þeim landshlutum þar sem framteljendur eru búsettir?
- Hve stór hluti heildarupphæðarinnar fer til framteljenda sem eru yfir meðalaldri?