Skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána, hin svokallaða „Leiðrétting“, sem boðuð var fyrir lok vorþings, hefur enn ekki verið lögð fram. Kjarninn hefur sent fjármála- og efnahagsráðuneytinu fimm fyrirspurnir um framlagningu skýrslunnar. Sú fyrsta var send í mars og sú síðasta í liðinni viku. Í svörum ráðuneytisins við hefur komið fram vinna við skýrsluna hefði verið langt komin í mars, að hún væri í lokafrágangi í byrjun maí og að hún yrði líklega birt um miðjan þann mánuð. Í dag er 20. júní og skýrslan, sem sýnir meðal annars hvernig „Leiðréttingin“ skiptist milli tekju- og aldurshópa og landssvæða, er enn ekki komin fram. Engar skýringar hafa verið gefnar á þessum töfum.
Ósvöruð fyrirspurn frá því í nóvember
Þegar útfærsla á skuldaniðurfærslum ríkisstjórnarinnar var kynnt þann 10. nóvember 2014 í Hörpu var það gert með glærukynningu. Í þeirri glærukynningu vantaði mikið af upplýsingum um skiptingu niðurfærsluupphæða á milli tekju- og aldurshópa. Það vantaði líka upplýsingar um frádráttarliði og hvernig upphæðin sem rynni úr ríkissjóði vegna aðgerðanna, allt að 80 milljarðar króna, myndi dreifast á mismunandi landssvæði.
Í nóvember í fyrra beindi Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um niðurfærslu á verðtryggðum fasteignalánum, hinni svokölluðu „Leiðréttingu“. Fyrirspurnin var í 15 liðum.
Í svari Bjarna sagði að hann hyggðist „leggja fyrir Alþingi ítarlega skýrslu um niðurstöður höfuðstólslækkunar húsnæðislána þar sem m.a. verður fjallað um þau atriði sem spurt er um í þessari fyrirspurn. Skýrslan mun byggjast á stöðu úthlutunar eins og hún verður við lok samþykkisfrests á ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar en eins og er vantar of mikið upp á endanlegar niðurstöður til að skynsamlegt sé að draga nægilega marktækar ályktanir um þetta mál. Reiknað er með því að skýrslan verði tilbúin og kynnt á vorþingi."
Skýrslan í lokafrágangi vikum saman
Kjarninn beindi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvenær skýrslan yrði tilbúin og hvenær ráðherrann ætlaði að kynna hana þann 25. mars síðastliðinn. Í svari ráðuneytisins sagði að vinna við skýrsluna væri langt komin en að ekki væri komin kynningardagsetning. Þó stæði enn til að kynna hana á vorþingi.
Áætluð þinglok vorþings samkvæmt starfsáætlun Alþingis voru 29. maí. Þegar ekkert bólaði á skýrslunni um niðurfærsluna á verðtryggðu húsnæðislánunum í byrjun maí sendi Kjarninn ítrekaða fyrirspurn um málið til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Samkvæmt svörum þess, sem bárust 7. maí, var vinna við skýrsluna á lokastígi og vonast var til að hægt yrði að leggja hana fram bráðlega. Ekki væri ólíklegt að það yrði í næstu viku á eftir, vikunni 11-17 maí.
Af því varð ekki og þann 21. maí sendi Kjarninn enn eina fyrirspurnina um skýrsluna. Þá fengust þau svör að hún væri í lokayfirferð í ráðuneytinu og að skýrslan yrði lögð fram fljótlega. Þann 1. júní, eftir að áætluð þinglok vorþings voru liðin, spurðist Kjarninn aftur fyrir um skýrsluna og fékk þá þau svö að hún væri enn í lokafrágangi. Vonandi væri hins vegar hægt að láta vita eftir hádegið þann dag hvenær framlagning hennar yrði. Af því varð ekki.
Sama dag, 1. júní, spurði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, fjármála- og efnahahagsráðherra út í málið á Alþingi. Þar svaraði ráðherrann því til að verið væri að vinna að því að taka saman skýrsluna. „Ég á eftir að fá endanlegt svar við því hvort það þurfi að bíða eftir álagningu ríkisskattstjóra, en ég hygg að við séum með betri upplýsingar núna en ég hafði á þeim tíma sem fyrirspurnirnar bárust þinginu,“ sagði Bjarni. Álagning ríkisskattstjóra berst ekki fyrr en síðsumars og því ljóst að framlagning skýrslunar myndi frestast fram á haustþing ef hennar yrði beðið.
Þann 16. júní, síðastliðinn þriðjudag, sendi Kjarninn fimmtu fyrirspurn sína um málið frá því í mars. Í svörum fjármála- og efnahagsráðuneytisins kom fram að fastlega væri gert ráð fyrir að skýrslan myndi skila sér í vikunni. Það hefur hún ekki gert.
Vert er þó að taka fram að vorþingið framlengdist umtalsvert yfir áætlaðan þinglokadag og þingstörf standa enn yfir. Því er ekki loku fyrir það skotið að skýrslan verði lögð fram áður en vorþingi lýkur, líkt og Bjarni Benediktssonar reiknaði með að yrði gert þegar hann svaraði fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur í desember 2014.