Fréttir af áætlunum forsætisráðherra um byggingu nýrrar viðbyggingar við Alþingi til þess að minnast 100 ára fullveldis Íslands eftir þrjú ár vöktu gríðarlega athygli. Margir töldu málið, sem birtist fyrst á forsíðu Fréttablaðsins, vera aprílgabb. Svo er ekki.
Fleira er áætlað til að minnast fullveldisins. Það á að byggja hús íslenskra fræða og nýja Valhöll. Hvergi í drögum að tillögunni er talað um kostnaðinn við þessar þrjár byggingar. Hins vegar kemur fram að gerðar hafi verið athuganir sem sýni fram á hagkvæmni þess að koma Alþingi öllu undir eitt þak.
Það er svolítið áhugavert í kjölfar þessara frétta að rifja upp ummæli sama Sigmundar fyrir einu og hálfu ári síðan, þegar Landsbankinn viðraði hugmyndir sínar um nýjar höfuðstöðvar á hafnarbakkanum í Reykjavík. Þá sagði Sigmundur nefnilega: „Ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki í opinberri eigu munu þurfa að spara á næstu árum. Nú er verið að endurskoða ýmis útgjaldaáform þannig að það myndi skjóta skökku við ef ríkisfyrirtæki réðist á sama tíma í byggingu dýrra höfuðstöðva”.
Frosti Sigurjónsson þingmaður tók undir það og sagði í ljósi þess að bankinn væri í eigu ríkisins, „sem er mjög skuldugt og stendur í erfiðum niðurskurði, er spurning hvort nýjar höfuðstöðvar ríkisbankans eigi að njóta forgangs. Ef ríkisbankinn er aflögufær um þá milljarða sem þarf til að byggja höfuðstöðvar, þá hlýtur það að vera krafa eigandans eins og staðan er núna að fjármagnið renni í ríkissjóð í formi arðs. Þannig myndu milljarðarnir nýtast við brýnni verkefni til dæmis í heilbrigðiskerfinu.“
Hefur svona mikið breyst á þessum tíma? Þarf ekki lengur að spara og er ríkið ekki lengur stórskuldugt? Jú, það fer ekki á milli mála hversu skuldugt ríkið er. En eitt og hálft ár er greinilega mjög langur tími í pólitík.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.