Í gögnun sem slitastjórn Glitnis sendi til kröfuhafa sinna á miðvikudag í síðustu viku kemur fram að hún fari fram á að þeir álykti um að settur verði á fót sérstakur sjóður í evrum að jafnvirði tíu milljarða króna. Sjóðurinn á að tryggja slitastjórninni skaðleysi vegna hugsanlegra málsókna í tengslum við ákvarðanir og störf hennar. Þetta kemur fram í DV í dag.
Þar segir einnig að sjóðurinn yrði nýttur til að standa straum að ýmsum kostnaði sem gæti fallið á meðlimi slitastjórnar, starfsmanna hennar (bæði núverandi og fyrrverandi), auk erlendu ráðgjafanna Moelis & Company og Talbot Hughes & McKillop (THM) vegna mögulegra málshöfðana eftir að slitameðferð lýkur. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir að svona skaðleysi tíðkist víða erlendis. Hún segir einnig að ekki sé útilokað að slitastjórnin muni segja sig frá störfum ef kröfuhafar fallist ekki á slíka tryggingu fyrir skaðleysi þeirra. Auk Steinunnar á Páll Eiríksson sæti í slitastjórn Glitnis.
Skipaðar af dómstólum og njóta ekki skaðleysis
Skilanefndir föllnu bankanna, sem skipaðar voru eftir hrun, nutu skaðleysis. Þær voru skipaðar af ríkinu og það ábyrgðist skaðleysi þeirra. Þegar erlend fyrirtæki voru að meta eignir nýju bankanna sem reistir voru á grunni þeirra gömlu þá kröfðust þau einnig skaðleysis gagnvart málsóknum sem gætu sprottið upp vegna mats þeirra. Annars voru þau ekki tilbúin að birta mat. Slitastjórnirnar voru hins vegar skipaðar af dómstólum og njóta því ekki skaðleysis.
Það er ekki að ástæðulausu sem krafist er skaðleysis. Uppgjör föllnu íslensku bankanna er nær fordæmalaust í heimssögunni og upphæðirnar sem undir eru stjarnfræðilega háar. Eignir Glitnis eru til að mynda tæpir eitt þúsund milljarðar króna.
Tchenguiz hefur stefnt íslenskum slitastjórnarmanni
Og það hefur þegar gerst að slitastjórnarmönnum hefur verið stefnt. Kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz stefndi slitastjórn Kaupþings, endurskoðendafyrirtækinu Grant Thornton, tveimur starfsmönnum Grant Thornton og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, sem situr í slitastjórn Kaupþings, í desember síðastliðnum og krefst 2,2 milljarða punda í skaðabætur, eða um 450 milljarða króna. Robert bróðir hans stefndi Kaupþingi og Jóhannesi Rúnari í ágúst.
Bæði málin voru höfðuð í Bretlandi, þar sem dýrt er að taka til varna.
Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um hver það væri sem greiddi fyrir málsvörn Jóhannesar Rúnars í júní síðastliðnum. Slitastjórn Kaupþings vildi ekki upplýsa um hvort hún greiddi fyrir málsvörnina. „
Kaupþing hefur ekki í hyggju að veita fjölmiðlum upplýsingar um það hvernig Jóhannes Rúnar fjármagnar vörn sína í téðu máli,“ sagði í skriflegu svari frá Kaupþingi við fyrirspurn Kjarnans.