Fjárfestar í leikjaiðnaði leita helst að nýjum hugmyndum og góðum plönum um það hvernig skal ná til markaðarins. „Að gera ráð fyrir því að Apple dreifi leiknum þínum er ekki góð markaðsstefna,“ sagði Samuli Syváhuoko frá Helsinki Gameworks á leikjaráðstefnunni Slush Play Reykjavík í dag.
Ráðstefnan Slush Play Reykjavík fór fram í Gamla bíói. Slush Play er leikjaráðstefna og hugmyndin á rætur að rekja til Finnlands, þar sem árlega koma saman fjórtán þúsund einstaklingar, fyrirtæki, fjárfestar og fjölmiðlar til að ræða tækifæri í leikjaiðnaði.
Eitt af umræðuefnum ráðstefnunnar var fjármögnun og tóku þrír íslenskir sérfræðingar þátt í umræðum, þau Þorsteinn Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla, Ólafur Andri Ragnarsson, stjórnarmaður í Betware og Helga Valfells hjá NSA ventures og Nýsköpunarsjóðnum. Þá tóku fyrrnefndur Samuli Syváhuoko og Susan Meza Graham frá Paradox þátt í umræðunum.
Ólafur Andri sagðist vera algjörlega sammála því að ekki væri sniðugt að gera ráð fyrir því að Apple dreifi leikjum manns. Hann sagðist mikið rannsaka það sem verður vinsælt á þessum markaði. „Margir í leikjaiðnaðinum eru að keppa um það sama, að vera með hugmynd sem er ekki í mikilli samkeppni skiptir máli.“
Fjárfestasambönd mikils virði
Þorsteinn sagði tvo hluti skipta miklu máli fyrir hann þegar kemur að fjármögnun. „Í fyrsta lagi er það hópurinn og svo er það söluræðan.“ Smáatriðin sagði hann skipta miklu, framsögn, hugmynd, sölupitchið og sú leið sem hópurinn fer inn á markaðinn. „Það er eitt af allra mikilvægasta í leikjaiðnaði. Því þú getur verið með góðan leik eða app, en fjöldinn allur af góðum leikjum eru í gangi í dag. Hvernig ætlar þú að láta þinn leik skara fram úr í þessu framboði leikja?“
Ólafur Andri tók undir þetta og sagði mikilvægt að byrja að hugsa um „market strategy“ um leið og og þróun hugmyndar fer af stað. Þessu var Helga Valfells einnig sammála. Hún benti einnig á samfélagslega ábyrgð sem mikilvægt atriði. Ef leikir eru uppbyggilegir og fræðandi geti það skipt miklu máli. „Það skiptir mig einnig máli að fylgjast með fyrirtækjum frá upphafi, sjá hvernig þau nota fjármagn sitt. Ef fyrirtæki hefur nýtt styrk sem það hefur hlotið þannig að það kemst á næsta stig gefur það vísbendingu um hæfni teymisins og þanþol. Ef það er meðvitað um kostnað og veit hvað það þarf gefur það vísbendingu um rekstrarhæfni, sem skiptir miklu máli.“