Hugbúnaðarfyrirtækið Snapchat, sem framleiðir hin geysivinsælu snjallsímaforrit undir sama nafni, er í dag metið á 19 milljarða Bandaríkjadala eða sem nemur tæplega 2.500 milljörðum króna. Bloomberg greindi frá þessu á vef sínum í gær, en forsvarsmenn Snapchat eru nú að sækja sér fé til fjárfesta sem gerir ráð fyrir þessum verðmiða á hlutafé félagsins.
Snapchat er búnaður sem gerir notendum kleift að deila myndskeiðum með öðrum, sem síðan eyða sér sjálf. Þá hefur Snapchat nýlega farið að bjóða upp á fréttaþjónustu inn í App-inu, og hyggst framþróa þá þjónustu frekar á næstunni.
Snapchat seeking round of funding that values company from $16 billion to $19 billion, source says - @BloombergNews http://t.co/S59kUFMJtH
— Breaking News (@BreakingNews) February 17, 2015
Auglýsing
Fyrirtækið freistar þess að safna 500 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 65 milljörðum milljörðum, til þess að þróa hugbúnaðinn áfram og þá ekki síst fréttaþjónustuhlutverkið.
Verðmiðinn er nálægt því sem var raunin þegar Facebook keypti WhatsApp samskiptahugbúnaðarfyrirtækið, en þá greiddi Facebook 22 milljarða Bandaríkjadala. Árið 2013 bauð Facebook þrjá milljarða Bandaríkjadala fyrir Snapchat, en stofnendurnir neituðu því boði. Notendur WhatsApp eru nú 700 milljónir manna um allan heim, en notendur Snapchat eru svipað margir, en þeir eru mun virkari í sinni notkun. Um 70 prósent notenda Snapchat er fólk undir 25 ára aldri.