Flóttafólk sem kemur til Þýskalands og ætlar áfram til Svíþjóðar, Noregs eða Finnlands þarf ekki að fara um Danmörku til að komast á áfangastað. Í gær fór fjöldi fólks með ferjum frá Rostock og Kíl til Gautaborgar og Trelleborgar við Eyrarsund. Á þennan hátt sleppur fólk við að fara um danskt landsvæði á leið sinni. Nokkur hundruð Sýrlendingar voru um borð í ferjum sem héldu frá Þýskalandi til Svíþjóðar í gærkvöldi.
Eins og mikið hefur verið fjallað um í fréttum undanfarna daga hefur talsvert á fjórða þúsund flóttafólks, einkum frá Sýrlandi en einnig fleiri löndum, farið frá Þýskalandi yfir landamærin til Danmerkur en ekki komist lengra. Danska lögreglan hefur stöðvað för þess, ýmist í Padborg á Suður-Jótlandi eða í Rødby á Lálandi. Danska lögreglan var engan veginn búin undir komu þessa mikla fjölda og enginn virtist almennilega vita hvað ætti að gera. Samkvæmt Dyflinarreglugerðinni á það fólk sem kemur frá Þýskalandi þegar að vera skráð, annað hvort þar eða í öðru landi en sú hefur ekki reynst raunin. Þjóðverjar ákváðu sem kunnugt er að hleypa þúsundum flóttafólks inn í landið án þess að skráning færi fram. Hluti þessa hóps hefur svo komið til Danmerkur en verið stöðvaður þar.
Flóttafólk á göngu í Danmörku, til að reyna að komast til Svíþjóðar, fyrr í vikunni. MYND: EPA
Ringulreið
Ringulreið lýsir best ástandinu sem ríkt hefur við dönsku landamærin síðan um helgi. Tæplega 700 manns úr þessum hópi (vel á fjórða þúsund) sem kom um helgina vilja gjarna setjast að í Danmörku. Mál þess fólks fer ákveðna leið. Stærsti hluti hópsins vildi hins vegar ekki láta skrá sig hér í Danmörku og þá tók við ákveðið þrátefli. Sumir féllust á að láta fyrirberast í íþrótta- og skólahúsum við landamærin, án þess að vera skráðir, aðrir neituðu að yfirgefa járnbrautarlestirnar sem stóðu á brautarstöðvum, enn aðrir tóku einfaldlega til fótanna og héldu áfram ferðinni á tveimur jafnfljótum.
Í gærmorgun gerðist svo það að lögreglan hvarf á braut, ef svo mætti segja og allir þeir sem hafst höfðu við í járnbrautarlestunum og íþróttahúsunum hurfu á braut. Margir með kunningjum eða sjálfboðaliðum sem fjölmennt höfðu á landamærunum og biðu þar átekta. Þegar spurt var hvers vegna lögreglan hefði svo skyndilega snúið við blaðinu voru svörin þau að lög heimili ekki að erlendum einstaklingi sé haldið lengur en 72 klukkustundir án þess að úrskurðað sé með einhverjum hætti í málum viðkomandi. Þess vegna hafi lögreglan ekki átt annarra kosta völ en láta flóttafólkið afskiptalaust, sleppa því með öðrum orðum. Danskir fjölmiðlar segja stjórnmálamennina hafa talað út og suður, forsætisráðherrann hafi sagt eitt, innflytjendaráðherrann annað og lögreglan orðið að taka ákvarðanir án þess að fá stuðning eða ráðleggingar ráðamanna. Fjölmiðlarnir eru þó sammála um að lögreglan hafi staðið sig vel við erfiðar aðstæður. Í gærkvöld var allt með kyrrum kjörum bæði í Rødby og Padborg og lögregluþjónn á vakt í Rødby sagði að þar væri talsverður fjöldi sjálfboðaliða á bílum en hins vegar ekkert flóttafólk.
Svíar ósáttir við Dani
Svíar eru síður en svo ánægðir með að Danir hleypi fólki gegnum landið án skráningar. Sænski forsætisráðherrann, Stefan Löfven lýsti undrun sinni yfir þeirri ákvörðun Dana og sagði að þetta gengi þvert gegn því sem danski forsætisráðherrann, Lars Løkke Rasmussen, hefði sagt. Lars Løkke hefur hinsvegar sagt að Danir hafi ekki átt annarra kosta völ en leyfa fólki að fara sína leið en ítrekaði jafnframt að finna yrði sameiginlega evrópska lausn.
Þurfa ekki að fara um Danmörku
Í gær var eins og sumir úr hópi flóttafólks hefðu skyndilega áttað sig á því að ekki væri nauðsynlegt fyrir þá að fara um Danmörku. Það ganga, eða sigla réttara sagt, ferjur milli Þýskalands og Svíþjóðar, til dæmis frá Rostock og Kíl til Gautaborgar og Trelleborgar. Þeir sem sigla með þessum ferjum stíga því ekki fæti á danska grund. Í gær völdu nokkur hundruð flóttamenn þennan kost. Skipafélögin sem halda úti ferjum á þessum leiðum búast við mikilli fjölgun farþega á næstunni.