„Við þurfum ekki að virkja meira en við þurfum að forgangsraða betur í þágu náttúrunnar, í þágu framtíðarkynslóða en ekki í þágu skammtímagróða og hagvaxtar. Hvað ætlar hæstvirtur ráðherra að gera annað en að botnvirkja Ísland í þágu stóriðjunnar? Það er spurningin mín. Hvað ætlar hann að gera?“
Þetta voru meðal spurninga sem Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata spurði Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag.
Ráðherrann brást ókvæða við og sagði meðal annars að það væru honum mikil vonbrigði ef þingflokkur Pírata ætlaði að tala gegn aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum.
Rödd náttúruverndar í mýflugumynd við gerð skýrslunnar
Halldóra hóf fyrirspurn sína á því að minnast á nýja skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum.
„Markmiðið var að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga á sviði orkumála á aðgengilegu formi til upplýsingar fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning. En faglegu sjónarmiðin náðu ekki lengra en svo að höfundar grænbókarinnar leggja ekki neitt sjálfstætt mat á sviðsmyndir heldur eru sviðsmyndir skýrslunnar uppsettar af orkufyrirtækjum sem skiluðu inn útreiknuðum sviðsmyndum sem voru, afsakið slettuna, forseti, bara „copy-peistaðar“ inn í skýrsluna.
Formaður hópsins sem vann grænbókina talar um að á næstu 18 árum þurfi að reisa ígildi fimm Kárahnjúkavirkjana á Íslandi. Stefnan er að stækka hagkerfið á ógnarhraða, keyra upp hagvöxtinn samhliða orkuskiptum. Á meðan aðrar þjóðir heims eru að breyta neysluvenjum, umbylta samgöngukerfum og aðlaga samfélag sitt að loftslagsbreytingum ætla íslensk stjórnvöld að nýta sér ferðina og nota orkuskiptin til að stækka stóriðjuna og keyra upp hagvöxtinn. Rödd náttúruverndar var í mýflugumynd við gerð skýrslunnar enda fengu náttúruverndarsamtök nánast engan tíma til að bregðast við, sem er mjög kunnuglegt stef, gefa þeim bara nægilega lítinn tíma til að bregðast við,“ sagði hún.
Spurði Halldóra um hvað seta ráðherrans snerist í umhverfisráðuneytinu. „Það er augljóslega ekki að vera rödd náttúruverndar. Hvaða arfleifð sá hæstvirtur ráðherra fyrir sér að skilja eftir sig þegar hann fer úr embætti? Ætlar hann að verða ráðherrann sem botnvirkjaði Ísland í þágu orkufyrirtækjanna og stóriðjunnar og nota loftslagsmálin sem skálkaskjól fyrir það? Eða ætlar ráðherra að gera eitthvað aðeins stærra?“ spurði hún.
Komumst ekkert áfram í þessum málum eingöngu með „stóryrðum og fyrirsögnum“
Guðlaugur Þór svaraði og sagði að það væru honum mikil vonbrigði ef þingflokkur Pírata ætlaði að „tala hér í fyrirsögnum“ og tala gegn aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum.
„Ef einhver trúir því í eina sekúndu að heimurinn sé að fara með einhverjum þeim hætti sem háttvirtur þingmaður vísaði til, ef einhver trúir því í eina sekúndu, þá hvet ég háttvirta þingmenn og alla aðra sem gera það til að fara á internetið og skoða hvað er að gerast í heiminum. Það sem er að gerast í heiminum er að við erum að berjast gegn loftslagsvánni og það gerum við með því að fara úr jarðefnaeldsneyti yfir í græna orku. Það er það sem við erum að gera ásamt ýmsu öðru. Það er án nokkurs vafa langstærsta aðgerðin. Umræðan fór mjög vel af stað og málefnalega og þetta er stórt verkefni til að vinna úr. Svo er það kannski bara þannig, virðulegi forseti, að það eru háttvirtir þingmenn sem eru ekki tilbúnir til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsvánni þegar til stykkisins kemur.
Ef menn telja að eitthvað sé rangt í þessari skýrslu og öðrum eiga menn auðvitað bara að koma með það fram. Þetta er gert eins gagnsætt og mögulegt er. Þetta er strax sett á netið, háttvirtir þingmenn fá aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þeir vilja. Ef það er eitthvað sem menn telja að betur megi fara þá skulu menn bara koma með málefnalegar athugasemdir við það. En við komumst ekkert áfram í þessum málum eingöngu með stóryrðum og fyrirsögnum,“ sagði ráðherrann.
Búum við efnahagskerfi sem grundvallast á hugmyndafræði um línulegan, óendanlegan hagvöxt
Halldóra kom í pontu í annað sinn og sagði að grænbókin væri skrifuð af hagsmunaaðilum stóriðjunnar í Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins.
„Við lifum á tímum þar sem hætta steðjar að mörgum skilyrðum þess sem gerir það lífvænlegt að lifa á þessari plánetu okkar sem hýsir okkur, sem fæðir okkur. Að miklu leyti er vandinn að við búum við efnahagskerfi sem grundvallast á hugmyndafræði um línulegan, óendanlegan hagvöxt á plánetu sem hefur ekki yfir óendanlegum auðlindum að ráða. Staðreyndin er sú að við erum langstærsti rafmagnsframleiðandi heims miðað við fólksfjölda, langstærsti. Við framleiðum tvisvar sinnum meira á hvern einstakling en Norðmenn sem eru í öðru sæti. 80 prósent af þessari orku fer í álver, kísilver og gagnaver. Þetta snýst ekkert um að við þurfum meiri orku. Þetta snýst um hvernig við forgangsröðum,“ sagði hún.
Spurði hún jafnframt hvernig þessi forgangsröðun þjónaði orkuskiptunum. „Við þurfum ekki að virkja meira en við þurfum að forgangsraða betur í þágu náttúrunnar, í þágu framtíðarkynslóða en ekki í þágu skammtímagróða og hagvaxtar. Hvað ætlar hæstvirtur ráðherra að gera annað en að botnvirkja Ísland í þágu stóriðjunnar? Það er spurningin mín. Hvað ætlar hann að gera?“ spurði hún.
„Hér er einn þingflokkur sem er á móti hagvexti“
Guðlaugur Þór sagði í framhaldinu þegar hann svaraði í annað sinn að grænbókin væri ekki í þágu stóriðjunnar og ef Halldóra hefði „kynnt sér málið þá snýst þetta um það að stórum hluta hvað þarf mikla orku í orkuskiptin sem við förum í“.
„Ég held að það skipti máli að menn tali skýrt og ég þakka háttvirtum þingmanni og Pírata fyrir að tala gegn hagvexti. Þá liggur það bara fyrir. Hér er einn þingflokkur sem er á móti hagvexti. Það eru hræðilegar fréttir fyrir þá sem þurfa á til dæmis ríkisútgjöldum að halda. Þá er ég að tala um öryrkja, þá sem þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda, skólunum og öðru slíku því að háttvitur þingmaður er að segja við þetta fólk: Við ætlum að taka niður lífskjör í landinu, við ætlum að taka niður opinbera þjónustu. Það er það sem háttvirtur þingmaður er að segja og háttvirtur þingmaður Björn Leví Gunnarsson er mjög ánægður með það. Við Íslendingar fórum í orkuskipti á undan öllum öðrum og við getum verið afskaplega stolt af því og það gerði ekki bara gott fyrir umhverfið,“ sagði hann.
Halldóra kallaði fram í og spurði hvað hann ætlaði að gera annað.
Guðlaugur Þór hélt áfram og sagði það gerði ekki einungis gott fyrir loftslagið. „Það gerðu líka gott fyrir efnahagslífið og jók samkeppnisforskot okkar á þessum sviðum. Við erum núna að fara í þá vegferð, að vísu eru aðilar sem ætla ekki í þá vegferð og það er þingflokkur Pírata, að fara í þriðju orkuskiptin og það er gott fyrir loftslagið og það er gott fyrir okkur Íslendinga.“
„Risaeðla í umhverfisráðuneytinu“
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata gerði orð ráðherrans að umtalsefni undir liðnum fundarstjórn forseta eftir fyrirspurnatímann og sagði að það væri orðinn ákveðinn plagsiður hjá ráðherrum að mæta frekar með derring en svör í óundirbúnar fyrirspurnir.
Hann vildi vekja athygli á því að umhverfisráðherra hefði farið að hrópa: „Þingmaðurinn hatar hagvöxt.“
Andrés Ingi sagðist hafa haldið að „við hefðum vaxið upp úr fyrir svona fimmtán árum í umræðunni um umhverfismál en nei, það er risaeðla í umhverfisráðuneytinu sem heldur að fólk sem vill hverfa frá því að einblína eingöngu á hagvöxt óháð því hvernig hann er tilkominn og hanna þannig grunn að sjálfbæru samfélagi – að það fólk sé einhvern veginn úti að aka.“