Sérstök gúrmet-góðgerðarpítsa úr smiðju Hrefnu Sætran meistarakokks, sem Domino's hóf sölu á í byrjun október, skilaði minningarsjóði Lofts Gunnarssonar, sem styrkir úrræði fyrir útigangsfólk rúmum fjórum milljónum króna. Sjóðurinn hyggst kaupa nýja skápa, rúm, sængurföt og ýmis raftæki, húsgögn og húsmuni inn á gistiskýli og athvörf sín í borginni.
Söluandvirði allra seldra góðgerðarpítsanna rann í minningarsjóðinn en móðir Lofts, Þórunn Brandsdóttir, veitti upphæðinni móttöku úr hendi Hrefnu og Birgis Arnars Birgissonar, framkvæmdastjóra Domino's á Íslandi, í Gistiskýlinu í dag.
Samtals söfnuðust 4.114.137 krónur. Fjármunirnir munu meðal annars nýtast við kaup á 21 rúmi og sængurbúnaði sem mun skiptast á þrjá staði, Dagsetrið, úrræði fyrir heimilislausa á Miklubraut og smáhýsin á Granda. Einnig verða keyptir skápar í gistiskýlið fyrir heimilislausa karla, en þess má geta að það flytur inn í nýtt húsnæði í dag, mánudag.
Ennfremur mun sjóðurinn kaupa húsgögn, raftæki og aðra muni sem bæta lífsgæði fólks á stöðum sem þjónusta útigangsfólk.