Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna brugðust reiðir við þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra yfirgaf þingsalinn í dag á meðan að fyrirspurn sem beint var til hans var til umræðu. Sögðu þingmennirnir að forsætisráðherrann hefði farið út úr salnum til að fá sér köku og sökuðu hann um að sýna samþingmönnum sínum óvirðingu.
Verið var að ræða vernd afhjúpenda og fyrirspyrjandi var Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, þegar Sigmundur Davíð á að hafa yfirgefið salinn. Næst var rætt um fundarstjórn forseta og þar steig Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna í pontu. Svandís sagði: „ Ég verð að segja það virðulegur forseti að ég held að ég hafi aldrei séð það gerast að hæstvirtur þingmaður eigi orðastað við hæstvirtann ráðherra sem að áður en hann svarar hæstvirtum þingmanni í síðari spurningu undir slíkum lið, þá fer ráðherrann út úr þingsal. Virðulegi forseti, var hann að fara til þess að fara á fund? Var hann að fara að tala við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða Sameinuðu þjóðirnar eða hvað?
Hann var að fara að fá sér köku, virðulegi forseti. Ég verð bara að segja það að mér finnst þetta með algjörum ólíkindum. Ég spyr forseta hvort þetta geti talist til sóma í þinginu?“
Í kjölfar hennar fylgdu nokkrir þingmenn, meðal annars Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, og Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, og tóku undir málflutning Svandísar. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, kvaddi sér hljóðs og sagðist hafa talið að hann væri hættur að verða hissa yfir framkomu forsætisráðherrans í þinginu, en í þetta skiptið hafi hann orðið hissa.