Nýafstaðnar þingkosningar í Danmörku munu rata í sögubækurnar sem einhverjar þær sérkennilegustu í sögu landsins. Eða úrslitin öllu heldur. Fyrir því eru margar ástæður.
Eftir að úrslitin lágu fyrir, og ljóst varð að stjórnin hefði misst meirihlutann, tilkynnti Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra að hún segði af sér formennsku í Jafnaðarmannaflokknum. Það er þó ekki slök útkoma jafnaðarmanna sem olli því að stjórnin féll heldur hitt að samstarfsflokkurinn í stjórninni, Radikale, galt afhroð og stuðningsflokkurinn Sósíalíski þjóðarflokkurinn sömuleiðis. Rauða blokkin svonefnda, stjórn Helle Thorning og stuðningsflokkar hennar fengu nú 85 þingsæti, bláa blokkin, stjórnarandstaðan 90. Þetta er fyrir utan 4 þingmenn Grænlands og Færeyja.
Í kosningunum 2011 töpuðu Jafnaðarmenn fylgi, fengu 44 þingmenn en urðu forystuflokkurinn í ríkisstjórn. Núna snérist taflið við þrátt fyrir að flokkurinn hafi bætt við sig þremur þingmönnum, hefur 47 fulltrúa á þingi og er stærsti flokkurinn.
Ótrúleg fylgisaukning
Ótvíræður sigurvegari kosninganna í gær var Danski Þjóðarflokkurinn sem bætti við sig hvorki meira né minna en 15 þingmönnum, hafði 22 en hefur nú 37 og er næst stærsti flokkur landsins. Ástæðurnar fyrir velgengninni eru, að mati danskra stjórnmálaskýrenda, þær helstar að flokkurinn hefur haft mjög ákveðna stefnu í málefnum innflytjenda og flóttamanna og vill takmarka "strauminn til Danmerkur" eins og það hefur verið orðað. Flokkurinn vill sömuleiðis standa vörð um aldraða og öryrkja og þeirra hag. Síðast en ekki síst nýtur formaðurinn Kristian Thulesen Dahl mikilla persónulegra vinsælda og það er talið vega þungt í útkomu flokksins.
Formaður Danska þjóðarflokksins, Kristian Thulesen Dahl, nýtur mikilla persónulegra vinsælda og það er talið vega þungt í útkomu flokksins. MYND:EPA
Alternativet, (Valkosturinn, Hinn möguleikinn) náði líka mjög góðum árangri í kosningunum, fékk 9 þingmenn. Uffe Elbæk, sem áður var í Radikale Venstre, og ráðherra í stjórn Helle Thorning, stofnaði flokkinn í hitteðfyrra og var ekki spáð velgengni. Útkoma hans kom því mjög á óvart. Flokkurinn hefur lagt mikla áherslu á umhverfismál og staðsetur sig vinstra megin á miðjunni, með rauðu blokkinni.
Liberal Alliance (Frjálsræðisbandalagið) sem tilheyrir bláu blokkinni náði líka góðum árangri, bætti við sig fjórum þingmönnum og hefur nú 13 fulltrúa á þingi. Formaðurinn Anders Samuelsen sagði í gærkvöldi að flokkurinn myndi nýta sér til hins ítrasta þá möguleika sem byðust. Aðaláherslumál flokksins hafa verið efnahags- og skattamál.
Enhedslisten (Einingarlistinn), stuðningsflokkur fráfarandi stjórnar, bætti við sig tveimur þingmönnum og hefur nú 14 þingmenn. Flokkurinn hefur, þrátt fyrir að styðja stjórn Helle Thorning, verið mjög gagnrýninn á margt í stefnu stjórnarinnar. Leiðtogi flokksins, Johanne Schmidt-Nielsen nýtur mikilla vinsælda og á ugglaust mikinn þátt í hvernig flokknum vegnar.
Venstre galt afhroð
Ekki var sami glansinn yfir útkomu Venstre flokks Lars Løkke Rasmussen. Flokkurinn tapaði 13 þingmönnum og hefur nú 34 fulltrúa á þinginu. Var stærsti flokkurinn á síðasta þingi en er nú þriðji fjölmennasti. Úrslitin eru reiðarslag fyrir flokkinn og einkum og sér í lagi formanninn. Kannanir hafa sýnt að Lars Løkke nýtur takmarkaðrar hylli almennings í landinu en fram til þessa hefur það ekki virst hafa mikil áhrif á fylgi flokksins. Annað kom í ljós í kosningunum.
Sósíalíski þjóðarflokkurinn, sem hefur lent í miklum mótbyr að undanförnu reið ekki feitum hesti frá kosningunum, tapaði 9 þingmönnum af 16 og hefur nú 7 þingmenn.
De Radikale venstre fengu líka skell, hafa nú 8 þingmenn en höfðu 17, töpuðu níu. Velgengni flokksins í kosningunum 2011 voru að talsverðu leyti skrifaðar á þáverandi formann Margrethe Vestager. Hún sagði af sér formennskunni á síðasta ári og tók við stöðu framkvæmdastjóra hjá Evrópusambandinu.
De Konservative (Íhaldsflokkurinn) sem eitt sinn var stærsti flokkur landsins, og var í stjórn með Venstre 2001-2011 fékk nú sex þingmenn, tapaði tveimur. Formaðurinn Søren Pape, sem kemur nýr á þing, taldi það viðunandi miðað við aðstæður.
Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra tilkynnti að hún segði af sér formennsku í Jafnaðarmannaflokknum eftir að niðurstaða kosninganna lá fyrir. MYND: EPA
Sérkennileg staða
Staðan í dönskum stjórnmálum er nú mjög einkennileg. Stærsti flokkur landsins missti völdin og flokksformaðurinn, fyrsti kvenforsætisráðherra í sögu Danmerkur hefur sagt af sér. Flokkurinn sem stjórnarandstaðan hefur til þessa bent á sem forystuflokk í nýrri stjórn tapaði miklu fylgi (missti 13 þingmenn) og er laskaður. Danski þjóðarflokkurinn, sem er nú stærsti flokkurinn í bláu blokkinni svonefndu, og næst stærsti flokkur landsins, lýsti því margoft yfir fyrir kosningar að þar á bæ sæktust menn ekki eftir að komast í stjórn. Margir spyrja nú: getur Danski þjóðarflokkurinn skorast undan þeirri ábyrgð að setjast í ríkisstjórn ? Treystir Lars Løkke Rasmussen sér til forystu í stjórn við þessar aðstæður, reynir hann kannski myndun minnihlutastjórnar án þátttöku Danska Þjóðarflokksins ? Er hugsanlegt (sem nefnt hefur verið) að Jafnaðarmannaflokkurinn undir forystu nýs formanns (væntanlega Mette Frederiksen) myndi stjórn í eins konar samvinnu við Danska þjóðarflokkinn ?
Spurningarnar eru margar, svörin liggja ekki í augum uppi.