Sóknargjöld, lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, munu verða 985 krónur á mánuði fyrir hvern skráðan einstaklinga 16 ára og eldri á næsta ári.
Það mun lækka úr 1.080 krónum á þessu ári og samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi munu sóknargjöld alls verða 2.757 milljónir króna á árinu 2022. Það er um 215 milljónum krónum lægri upphæð en á að fara í sóknargjöld í ár.
Ástæðan fyrir lækkuninni er að nú á að fastsetja fjárhæð sóknargjalda, í 985 krónum fyrir hvern einstakling sem slík eru greidd fyrir. Það var reyndar líka gert í fjárlagafrumvarpi ársins 2021, þegar upphæðin var 980 krónur.
Ástæða þess að endanleg sóknargjöld urðu hærri í ár er að efnahags- og viðskiptanefnd ákvað að gera tillögu um 100 króna tímabundna hækkun sóknargjalda eftir umfjöllun sína um fjárlagafrumvarpi fyrir um ári síðan. Sú tillaga var samþykkt og leiddi það til 280 milljóna króna viðbótarkostnaðar vegna sóknargjalda í ár. Nú hefur þessi tímabundna hækkun verið felld niður.
Rúmlega 60 prósent eru í þjóðkirkjunni
Alls fara 7.951 milljónir króna í málaflokkinn trúmál á næsta ári samkvæmt fjárlögum. Í samræmi við nýjan viðbótarsamning um endurskoðun á kirkjujarðarsamkomulaginu frá 1997 og samningi um rekstrarkostnað kirkjunnar frá 1998 sem var undirritaður fyrir rúmum tveimur árum fær þjóðkirkjan þorra þessarar upphæðar. Árlega fær hún framlög frá ríkinu á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins sem og framlög sem renna til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna.
Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld og ef miðað er við að 61,1 prósent íbúa landsins tilheyra henni samkvæmt nýjustu birtu tölum Þjóðskrár þá má ætla að hlutdeild þjóðkirkjunnar í útgreiddum sóknargjöldum verði á næsta ári verði tæplega 1,7 milljarðar króna. Önnur trúfélög skipta svo á milli sín tæplega 1,1 milljarði króna.
Rúmur helmingur vill aðskilnað
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að einungis 15 prósent landsmanna eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup.
Þriðjungur landsmanna, alls 33 prósent, sögðust treysta þjóðkirkjunni en 36 prósent treystu henni ekki. Þetta eru svipuð hlutföll og hafa verið á undanförnum árum þegar spurt hefur verið um traust til kirkjunnar.
Alls sögðust 51 prósent landsmanna að þeir vildu aðskilnað ríkis og kirkju. Hlutfallið lækkaði lítillega frá árinu 2019 þegar 55 prósent sögðust á þeirri skoðun en það hefur verið yfir 50 prósent í næstum árlegum könnunum Gallup frá árinu 2007.
Í þjóðarpúlsinum sást að fólk undir fertugu er helst hlynnt aðskilnaði.
Telur samkomulagið kosta ríkið yfir 100 milljarða
Siggeir F. Ævarsson, framkvæmdastjóri lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar, skrifaði grein á Vísifyrir tæpum mánuði síðan þar sem hann færði rök fyrir því að kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 væru óhagstæðustu samningar Íslandssögunnar. Hann sagði að þeir myndu að endingu kosta ríkið yfir 100 milljarða króna og skila litlu sem engu til baka.
Í grein Siggeirs sagði að fasteignamat þeirra kirkjujarða sem væru enn í eigu ríkisins væri undir 2,8 milljörðum króna. Uppreiknað virði þeirra jarða sem hefðu verið seldar væri um 4,2 milljarða króna. Því væri uppreiknað heildarviðir jarðanna um sjö milljarðar króna. Það er minna en samanlagðar heildargreiðslur ríkissjóðs til þjóðkirkjunnar á árunum 2021 og 2022.
Siggeir sagði í grein sinni að þegar samkomulagið væri á enda runnið væri ríkið búið að greiða vel yfir 100 milljarða króna fyrir jarðirnar.