Árið 2006 hófst átak í Kaliforníu-ríki sem miðaði að því að hvetja fólk til að koma sér upp sólarrafhlöðum á húsþökum sínum. Ákveðnar ívilnanir fylgdu þessu átaki og margir slógu til enda til mikils að vinna að lækka rafmagnsreikninginn og leggja sitt af mörkum til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.
En nú, tæpum tveimur áratugum síðar, er komið að skuldadögum. Hvernig á að farga þessum 1,3 milljón sólarrafhlöðum sem eru farnar að daprast? Það var alltaf fyrirséð að skipta þyrfti þeim út eftir um tuttugu ár eða svo en að engin umhverfisvæn förgunarleið og ekkert plan um endurvinnslu myndi ekki liggja fyrir að öllum þeim tíma liðnum hefur komið á óvart.
Í fréttaskýringu LA Times kemur fram að margar sólarsellurnar hafi nú þegar endað í landfyllingum. Þar leka eiturefni úr þeim út í jarðveginn og grunnvatn enda sólarrafhlöður, líkt og mótorar vindmylla, samansettar af alls konar efnum, oft fágætum jarðefnum, sem eru ekki stöðug og jafnvel hættuleg.
Staðreyndin er sú að það er dýrt að endurvinna sólarrafhlöður svo vel sé. Tímafrekt og dýrt. Þess vegna er talið, að því er sérfræðingar er LA Times ræðir við segja, að aðeins ein af hverjum tíu slíkum rafhlöðum séu endurunnar. Teknar í sundur. Álið flokkað í einn kassa. Sjaldgæf jarðefni í annan.
Sú staða sem nú er komin upp í Kaliforníu, því ríki Bandaríkjanna sem mest notar af sólarorku og því ríki sem fór fyrst af stað í almenna nýtingu hennar, hefur vakið upp margar spurningar um þann sprengikraft sem kominn er í umræðuna um endurnýjanlega orkugjafa – græna gullið. Hver á að borga fyrir förgun á ríkisstyrktum, mengandi sólarrafhlöðum? Og hvað á eiginlega að gera við tugi vörubílsfarma af þeim? Vantaði ekki eitthvað í hina fögru framtíðarsýn sem farið var af stað með á sínum tíma og hefur aðeins eflst síðustu misseri?
Því Kalifornía er auðvitað aðeins eitt ríki. Eitt ríki í einu landi. Í heimi þar sem stefnt er að því að nýta sólar- og vindorku í miklum mæli. „Þessi iðnaður á að heita grænn,“ segir Sam Vanderhoof, sérfræðingur í nýtingu sólarorku, við LA Times. „En í raun og veru snýst þetta allt um peninga.“
Sólarorkuátakið í Kaliforníu skilaði þeim markmiðum sem til var ætlast. Sólarsellur ruku út sem aldrei fyrr og hlutur sólarorku í raforkuframleiðslu jókst umtalsvert. Um 15 prósent alls rafmagns sem framleitt er í ríkinu í dag kemur frá sólarorku.
En það gleymdist ein stór breyta í jöfnunni. Hvernig farga ætti rafhlöðunum er þær hefðu gegnt sínu hlutverki. Og nú þegar komið er að því að skipta þeim mörgum út blasir uppsafnaður vandi við stjórnvöldum og framleiðendum rafhlaðanna.
Serasu Duran, aðstoðarprófessor við Haskayne-háskóla í Kanada, segir að þetta sýni hvernig fari þegar öll áherslan er lögð á að fara í leiðangra með nýja tækni án þess að hugsa hann til enda. Hann skrifaði grein í Harvard Business Review nýverið þar sem hann vakti athygli á því að orkuiðnaðurinn, fyrirtækin sem framleiða rafhlöðurnar og þau sem setja þær upp og tengja, sé engan veginn undirbúinn fyrir það sem koma skal.
Um 140 þúsund sólarrafhlöður eru settar upp á hverjum degi í Bandaríkjunum um þessar mundir. Spár gera ráð fyrir að nýting sólarorku eigi eftir að fjórfaldast til ársins 2030.
Það eru vissulega fyrirtæki í Bandaríkjunum sem taka að sér endurvinnslu og förgun eiturefna úr sólarsellum. Það stærsta, We Recycle Solar, hefur undanfarið tekið við töluverðu magni af slíkum rafhlöðum frá Kaliforníu. En til að farga þeim eru þeim ekið í flutningabílum til Arizona. Það er þó ekki þannig að fyrirtækið vilji ekki hafa starfsemi sína í Kaliforníu. Það eru lög og reglur ríkisins sem hindra það, reglur sem setja þröngan ramma um úrvinnslu eiturefna.
Svo er það ekki ókeypis að taka rafhlöðurnar í sundur. Til þess þarf ýmsan búnað og sérþjálfað starfsfólk. Til að flokka allt sem í þeim er í sundur, t.d. kísil, þarf mikinn hita og þrýsting. Ávinningurinn er svo ekki sérstaklega mikill. Forstjóri We Recycle Solar segir að efni sem seljist á um 2-4 dollara fáist úr hverri sólarrafhlöðu sem er endurunninn. 280-550 krónur. Það er einfaldlega ekki arðbært að gera það. Því þarf einhver að borga fyrir förgunina. Eins og staðan er kostar um 20-30 dollara að farga hverri rafhlöðu. Það kostar hins vegar aðeins 1-2 dollara að setja hana í landfyllingu.
Og það er þar sem flestar sólarrafhlöður enda núna að sögn þeirra sérfræðinga sem LA Times ræðir við í umfjöllun sinni. Enginn veit þó með vissu hvað verður um þær nákvæmlega. Ekkert kerfi er til staðar til að skrá hvað verður um hin mengandi tæki sem notuð eru til að fanga hina endurnýjanlegu orku, sólarljós.
Ítarlega umfjöllun LA Times má lesa hér.