Gamla Húsasmiðjan, sem nú heitir Holtavegur 10 ehf., hefur greitt samtals rúmlega milljarð króna vegna endurálagningu skatta og samkeppnissektar á undanförnum árum. Það þýðir að allar eignir félagsins, að meðtöldum þeim 800 milljónum króna sem fengust þegar Húsasmiðjan var seld út úr félaginu í árslok 2011, hafa farið í að greiða skatta og sektir.
11,2 milljörðum breytt í hlutafé
Húsasmiðjan lenti í fangi kröfuhafa sinna eftir bankahrun. Langstærstur kröfuhafanna var Landsbankinn. Í kjölfarið var 11,2 milljörðum króna af skuldum félagsins breytt í nýtt hlutafé. Eignarhaldsfélagið Vestia, þá í eigu Landsbankans, eignaðist við þetta Húsasmiðjuna sem fylgdi því svo inn í Framtakssjóðinn þegar félagið var lagt þangað inn gegn stórum eignarhlut í sjóðnum. Aðrir eigendur Framtakssjóðsins eru helstu lífeyrissjóðir landsins.
Samkeppniseftirlitið tilkynnti í morgun að gamla Húsasmiðjan hefði náð sátt við samkeppnisyfirvöld sem fól í sér að hún viðurkenndi að hafa brotið samkeppnislög með umfangsmiklu ólögmætu samráði við Byko. Þar sem gamla Húsasmiðjan viðurkenndi brot sitt og var tilbúin að gera sátt taldi Samkeppniseftirlitið réttlætanlegt að leggja á félagið lægri stjórnvaldssekt en ella. Það var því ákveðið að hún yrði 325 milljónir króna. Málið er afrakstur margháttaðra aðgerða, meðal annars húsleita og símhleranna, sem Samkeppniseftirlitið réðst í vorið 2011 vegna gruns um samkeppnisbrot hjá Húsasmiðjunni, Byko og Úlfinum.
Rúmlega 700 milljónir króna vegna öfugs samruna
Þetta er ekki eina greiðslan sem gamla Húsasmiðjan hefur þurft að greiða á undanförnum árum. Í lok árs 2011 tilkynnti Ríkisskattstjóri að Húsasmiðjan skuldaði rúmlega 700 milljónir króna í skatta vegna svokallaðs öfugs samruna sem fyrrum eigendur hennar höfðu ráðist í. Í slíkum samruna felst að eignarhaldsfélag er sett á fót og það kaupir rekstrarfélag með lánsfé. Eignarhaldsfélagið er síðan látið renna inn í rekstrarfélagið og þar með er skuldunum sem stofnað var til við kaupin komið inn í reksturinn sem þær voru notaðar til að kaupa.
Tilkynning um endurálagningu skattanna kom þegar langt var liðið á söluferli Húsasmiðjunnar, en danska byggingavöruverslunarkeðjan Bygma var þá við að kaupa hana. Vegna skattavandkvæðanna var rekstur Húsasmiðjunnar settur yfir á nýja kennitölu, 2,5 milljarðar króna af skuldum hennar líka og nýja kennitalan seld til Bygma fyrir 800 milljónir króna.
Eftir í gömlu Húsasmiðjunni voru skildar eignir sem voru metnar á 240 milljónir króna og kaupverðið, 800 milljónir króna. Þetta var meðal annars skilið eftir til að borga skattaskuldina og mögulega sekt vegna samkeppnisbrota. Nú er ljóst að nánast allt þetta fé hið minnsta hefur farið í að greiða þennan kostnað. Að teknu tilliti til þessa þá fékk fyrrum eigandi Húsasmiðjunnar, Framtakssjóður Íslands, ekkert fyrir fyrirtækið þegar það var selt til Bygma í lok árs 2011.