Aðspurð hvort það komi til greina að hún bjóði sig aftur fram til formennsku í Eflingu segir Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður félagsins, að hú sé ekki búin að ákveða neitt.
Hún skilji þó að það séu bollaleggingar um hvort hún muni fara aftur fram í komandi formannskosningum í Eflingu, sem þurfa að fara fram fyrir lok mars á næsta ári. „Ég hef fengið gríðarlegt magn af skilaboðum frá allskonar fólki sem lýsir yfir uppnámi yfir því að þetta sé að gerast og inntakið í þessum skilaboðum frá félagsfólki Eflingar er einbeitt ósk um að þetta megi ekki vera að gerast. Það er ekki vegna þess að þeim finnst ég svo skemmtileg manneskja, heldur út af þeim árangri sem hefur náðst. Og vegna þess að það fólk sem ég hef unnið með, til dæmis í samninganefndum, veit að ég gefst ekki upp. Ég segi alltaf satt og rétt frá og leita alltaf eftir lýðræðislegu umboði fyrir því sem ég geri og hef reynt að vera alltaf til staðar fyrir félagsfólk. En ég lít svo á núna að ég geti ekki hugsað lengra fram í tímann en einn dag í einu núna. Ég er bara þar.“
Ekki búin að ákveða næstu skref
Þegar Sólveig Anna greindi frá afsögninni, í stöðuuppfærslu á Facebook, sagði hún að hún ætlaði aldrei að hætta í baráttu fyrir réttlæti fyrir þá sem tilheyrum stétt verka- og láglaunafólks og þekkja lífið undir oki auðvaldskerfisins og láglaunastefnunnar.
Þegar hún er spurð hvað þetta þýði, og hvort hún sé að boða endurkomu inn í stéttarfélagsbaráttu innan tíðar, segir Sólveig Anna ekki vera komin þangað. „Ég er að vinna mig í gegnum þetta áfall að vera hrakin burt úr embætti formanns Eflingar sem ég tel mig hafa notið nær afdráttarlauss stuðnings félagsmanna til að gegna. Og ég ætla bara að fá að vera þar. Eina ákvörðunin sem ég hef tekið er að klára loksins ævisögu Rosu Luxemburg, sem er mikill doðrantur.“