Keith Le Goy, einn stjórnenda Sony, reyndi í nóvember 2013 að þrýsta á efnisveituna Netflix að loka fyrir ólöglega notkun í löndum á borð við Ísland. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Le Goy sendi til stjórnenda Netflix. Tölvupósturinn er hluti af hinum svokallaða Sony-leka sem nú er aðgengilegur á vef Wikileaks, en RÚV greindi frá þessu í morgun.
Í tölvupóstunum eru sérstaklega nefnd þrjú markaðssvæði, Ísland, Ástralía og Suður-Afríka, sem Le Goy vill að verði lokað hjá Netflix. Lýsir óánægju sinni með stöðu mála, og segir að dreifingaraðilar á þessum svæðum hafi sett sig í samband við Sony og viljað að gripið verði til aðgerða. Ekkert varð af því, að Netflix lokaði fyrir aðgang notenda hér.
Í október í fyrra bárust þær fréttir að unnið væri að því að opna Netflix hér á landi, en Samfilm og Netflix hafa þegar gert með sér samkomulag þess efnis. Ekkert hefur þó verið ákveðið hvenær þjónustan verður formlega aðgengileg hér á landi, með alíslensku leyfi.