Sósíalistaflokkur mælist nánast jafn stór og Miðflokkurinn í nýjustu könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar á fylgi stjórnmálaflokka.
Sá fyrrnefndi, sem hefur aldrei áður boðið fram í þingkosningum, hefur ekki kynnt framboðslista sína né stefnuskrá fyrir komandi kosningar, mælist með 5,7 prósent fylgi sem myndi tryggja viðveru á Alþingi að óbreyttu, miðað við niðurstöðu könnunarinnar. Miðflokkurinn, sem vann mikinn kosningasigur haustið 2017 þegar hann fékk bestu kosningu sem nýr stjórnmálaflokkur hefur nokkru sinni fengið með 10,9 prósent atkvæða, mælist nú með 6,1 prósent fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins með 21,8 prósent fylgi, en er langt frá kjörfylgi sínu. Vinstri græn mælast með með 13,2 prósent og hafa líka dala umtalsvert á kjörtímabilinu. Framsóknarflokkurinn mælist með 10,9 prósent, sem er nánast það sama og flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í október 2017.
Þrír andstöðuflokkar hafa bætt við sig
Af stjórnarandstöðuflokkunum fimm tapa tveir fylgi frá síðustu kosningum. Áðurnefndur Miðflokkur, sem hefur tapað 44 prósent af stuðningi sínum, og Flokkur fólksins, sem mælist nú með 4,4 stuðning. Það myndi ekki duga Flokki fólksins til að ná inn á þing að óbreyttu.
Samfylkingin mælist næst stærsti flokkur landsins þótt hún hafi dalað umtalsvert í könnunum Maskínu á undanförnum mánuðum. Alls segjast 13,7 prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa flokkinn. Píratar og Viðreisn mælast báðir með 12,1 prósent og þessir þrír flokkar eru allir að bæta við sig frá 2017.
Þá fengu Samfylkingin, Píratar og Viðreisn samanlagt 28 prósent atkvæða en fylgi þeirra nú mælist næstum tíu prósentustigum meira, eða 37,9 prósent.
Könnun Maskínu byggir á tveimur mælingum sem gerðar voru á dögunum 15. til 25. febrúar og 11. til 18. mars. Svarendur voru 1.620 talsins.