Sósíalistaflokkurinn segir að að núverandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarmála hafi brotið niður byggðir og safnað upp auð örfárra, svo miklum auð að hann ógni lýðræðinu og frelsi almennings.
Flokkurinn segist í tilkynningu í dag, um stefnu sína í sjávarútvegsmálum, vilja leggja kvótakerfið niður og „byggja réttlátari umgjörð utan um fiskveiðar og vinnslu.“
Uppbrot fyrirtækja, þversum og langsum
Í tilkynningu flokksins, sem birt er á vef hans, segir að þær tillögur sem flokkurinn muni leggja fram snúist um að brjóta fyrirtæki í sjávarútvegi upp, bæði „langsum“ og „þversum.“
„Sósíalistaflokkurinn mun leggja til að takmarkanir verði settar á umfang stórútgerða svo stærstu útgerðirnar verði brotnar upp langsum, að þær verði að kljúfa sig upp í tvö eða fleiri félög. Þetta er gert til að draga úr ægivaldi stórútgerðanna yfir byggðunum og til að tryggja fjölbreytileika og nýliðun.
Þá leggja sósíalistar til að útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin verði brotin upp þversum, þannig að sama fyrirtækið geti ekki veitt fiskinn og selt sjálfu sér aflann, unnið fiskinn og selt sjálfu sér afurðirnar og selt síðan sjálfu sér afurðirnar í útlöndum og falið þar gróðann,“ segir á vefsíðu flokksins.
Flokkurinn, sem sendir þessa stefnumörkun sína út undir fyrirsögninni „Brjótum upp Samherja - Endurheimtum auðlindarnar“, tekur dæmi um Samherja og segir að það fyrirtæki yrði „klofið upp vegna stærðar sinnar“ bæði langsum og þversum.
„Yfirgangur og frekja þessa fyrirtækis ætti ekki að koma neinum á óvart. Þegar stórfyrirtækjum er leyft að vaxa samfélaginu yfir höfuð þá verða þau að skaðvaldi og það ber að bregðast við þeim sem slíkum. Það er löngu tímabært að þjóðin sýni Samherja hver hefur völdin,“ segir í tilkynningu flokksins.
Þjóðareign í stjórnarskrá og fiskiþing
Í tilkynningu sósíalista segir einnig að flokkurinn leggi til að bundið verði í stjórnarskrá að fiskveiðiauðlindin sé eign þjóðarinnar og að þjóðin ákveði sjálf hvernig nýtingu hennar sé háttað.
Flokkurinn leggur einnig til „fiskiþing í hverjum landshluta þar sem sjómenn, fiskverkafólk og almenningur allur sest niður og mótar fiskveiðistefnuna til lengri tíma“ og segir í tilkynningunni að til að „losna við yfirgang útgerða og annarra hagsmunaaðila“ færi best á því að nota slembival til að velja fulltrúa á þingin, að stærstu eða öllu leyti.
Flokkurinn segist einnig vilja „loka kvótakerfinu strax“ og taka upp dagakerfi fyrir togara og báta, með óframseljanlegum dögum á skip og báta, þar til fiskiþingin hafi mótað framtíðarstefnu.
Verði jafn einfalt og virðisaukaskattur
Sósíalistar segjast einnig ætla að gera kröfu um að allur afli fari á markað og að veiðigjöld verði innheimt við löndun, „á jafn einfaldan máta og virðisaukaskattur“.
„Það má meira að segja vel hugsa sér að veiðigjaldið sé það sama og virðisaukinn í dag, eða 24%. Það myndi gefa um 35 milljarða króna á ári í veiðigjöld miðað við verð afla á síðasta ári, en reikna má með að aflaverð hækki þegar allur fiskur fer á markað. Veiðigjöldin renni jafnt til sveitarfélaga og ríkis,“ segir flokkurinn í yfirlýsingu sinni.
Þar segir einnig að vilji flokksins sé að gefa handfæraveiðar frjálsar fimm veiðidaga í viku að eigin vali frá mars til október og að „aflaheimildir í Barentshafi, í Smugunni og annars staðar í úthafinu“ verði boðnar upp.
Sérstök rannsókn á hendur stærstu fimm fyrirtækjunum
Sósíalistaflokkurinn vill einnig, „í ljósi Samherjamálsins,“ að fimm stærstu útgerðarfyrirtækin á Íslandi verði „rannsökuð til að kanna hvort þar hafi mútum verið beitt, fiskverð falsað, sjómenn hlunnfarnir, skotið undan skatti, arður af rekstrinum og auðlindinni falinn í aflöndum eða brotið með öðrum hætti gegn samfélaginu.“
Í yfirlýsingu flokksins segir enn fremur að ef „stórfelld svik“ komi í ljós við þessar rannsóknir verði efnt til rannsóknar á næstu fimm útgerðarfyrirtækjum.