Verðbólga verður undir neðri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í febrúar, þriðja mánuðinn í röð, og er heldur að lækka, samkvæmt verðbólguspá fjármálaráðgjafar Capacent. Gangi spáin eftir þýðir það m.a. að áfram er verðhjöðnun á Íslandi þegar vísitala neysluverðs er skoðuð án húsnæðis. Verðhjöðnunin nam 0,6 prósentum í janúar.
Capacent spáir 0,6 prósenta hækkun á vísitölu neysluverðs í mánuðinum. Hækkun á verði fatnaðar, húsgagna, raftækja og fleiri vara hækkar vísitöluna um 0,5 til 0,6 prósent, en hækkunin skýrist af því að útsölum er lokið. Ekki er gert ráð fyrir því í spánni að matvælaverð hækki meira, enda hækkaði það um 2,6 prósent í janúar.
Í spánni segir að nokkur óvissa sé til staðar í spánni, sem liggi aðallega í mælingu á verði flugfargjalda í mánuðinum. Lausleg könnun Capacent bendir til þess að verð á flugi hafi hækkað milli janúar og febrúar, vegna hækkunar á olíuverði, en í spánni er gert ráð fyrir því að flugfargjöld lækki nú sem nemur 7,5 prósentum, og það hefur 0,12% áhrif á lækkun vísitölu neysluverðs.
Hækkun olíuverð hefur líka áhrif á eldsneytisverð, sem hefur hækkað um 2,5 prósent, en það hefur 0,1% áhrif til hækkunar á vísitölunni. Ekki er gert ráð fyrir því að það hækki frekar, enda hefur olíuverð lækkað á ný síðustu daga.