Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem fer fram 4. febrúar. Stýrivextir eru nú 5,25 prósent en lækka í 5 prósent, gangi spáin eftir. „Helstu rök nefndarinnar fyrir lækkun stýrivaxta er þau, að verða að okkar mati þau að ný verðbólguspá bankans bendi til þess að verðbólgan verði talsvert undir þeirra síðustu spá sem birt var í nóvember sl. og að samkvæmt nýrri spá verður verðbólgan undir verðbólgumarkmiði bankans fram á næsta ár. Verðbólgan hefur nú verið undir verðbólgumarkmiðinu í heilt ár og fór hún undir neðri fráviksmörk verðbólgumarkmiðsins í desember sl. Við reiknum með því að viðbúnaður nefndarinnar við þeirri hættu að komandi kjarasamningar fari úr böndunum og ógni verðbólgumarkmiðinu verði í febrúar verði aðallega sá að útskýra vel að slík þróun myndi kalla á vaxtahækkanir,“ segir í morgunkorni greiningarinnar.
Verðbólga mælist nú 0,8 prósent, töluvert undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiðinu. Flestar spár gera ráð fyrir að verðbólga haldist undir markmiðinu út þetta ár hið minnsta. Óvissa er þó um hver áhrifin verða af rýmkun eða afnámi fjármagnshafta, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hafa sagt að útgangspunkturinn í vinnunni sem snýr að afnámi hafta sé að vernda efnahagslegan stöðugleika, með almannahagsmuni að leiðarljósi.