„Við spáum að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum að sinni en næsti vaxtaákvörðunarfundur verður haldinn 18. mars nk. Veigamestu rökin fyrir að halda vöxtum óbreyttum eru annars vegar þau að verðbólguvæntingar hafa hækkað nokkuð frá síðasta fundi peningastefnunefndar og hins vegar að veruleg óvissa er varðandi launaþróun næstu misseri.“ Þetta segir í nýrri spá frá greiningardeild Arion banka. Stýrivextir eru nú 5,25 próent, en í spánni segir að Peningastefnunefndin hafi gefið það í skyn í síðustu fundargerð að rétt væri að staldra við þar til efnahagshorfur færu að skýrast einkum varðandi launaþróun.
Hagvaxtartölur í takt við væntingar
Hagstofan birti í vikunni tölur um landsframleiðsluna á síðasta ársfjórðungi 2014 og eru þar með komnar bráðabirgðatölur um hagvöxt fyrir árið í heild. Hagvöxtur ársins nam 1,9 prósent og er í takt við það sem peningastefnunefnd gerði ráð fyrir í síðustu fundargerð, en uppfærð spá Seðlabankans gerði ráð fyrir tvö prósent hagvexti á árinu. Tölur fyrir þriðja ársfjórðung voru færðar talsvert upp á við eins og búist var við, eða úr 0,2 prósent samdrætti í 1,7 vöxt, segir í umfjöllun greiningardeildarinnar. „Í heild sinni teljum við að tölurnar séu í takt við væntingar og hafi því ekki afgerandi áhrif á næstu vaxtaákvörðun,“ segir í umfjöluninni.
„Leiða má líkur að því að peningastefnunefnd sitji föst á sínu og haldi vöxtum óbreyttum þar til frekari niðurstaða kjarasamninga liggur fyrir. Að minnsta kosti munu vextir ekki lækka þegar verðbólguvæntingar fara vaxandi og algjör óvissa er um hver launaþróun verður næstu misseri. Við spáum því óbreyttum stýrivöxtum um sinn og teljum líklegt að vextir haldist óbreyttir þar til skýrast fer hvert stefnir í kjaraviðræðum,“ segir í umfjölluninni.
Er þar meðal annars vitnað orðrétt í orðalag, í fundargerð Peningastefnunefndar, þar sem segir; „...var nefndin sammála um að rétt væri að staldra við uns efnahagshorfur skýrðust frekar, einkum varðandi launaþróun.“
Staðan á vinnumarkaði er tvísýn um þessar mundir, svo ekki sé fastar að orði kveðið, en viðræðum Starfsgreinasambandsins (SGS) og SA hefur verið slitið, og er búist við að verkföll að hálfu SGS geti hafist í kringum 10. apríl, eða helgina eftir páska.