Seðlabanki Íslands spáir því að fjöldi ferðamanna sem heimsæki Ísland í ár verði um 720 þúsund alls. Það eru um 40 þúsund fleiri ferðamenn en bankinn spáði að myndu koma hingað til lands í spá sinni sem birtist í lok ágúst.
Þetta kemur fram í ritinu Peningamálum sem kom út 17. nóvember síðastliðinn.
Þar segir að útlit sé fyrir áframhaldandi bata í ferðaþjónustu þrátt fyrir hraða fjölgun smita í sumar vegna Delta-afbrigðisins og stöðu Íslands á rauðum lista hjá sóttvarnarstofnunum Evrópu og Bandaríkjanna. „Aðrar vísbendingar gefa einnig til kynna að batinn verði hraðari en áður var talið. Þannig hefur leitum að hótelum og flugi til Íslands á leitarvél Google t.d. fjölgað frá því í sumar og nálgast sambærilegan fjölda og fyrir faraldurinn. Þá eru horfur á að alþjóðlegt farþegaflug sæki í sig veðrið á næstu misserum í kjölfar þess að bólusettum ferðamönnum er orðið heimilt að ferðast til Bandaríkjanna í fyrsta sinn síðan í mars í fyrra.“
20 prósent færri en í forsendum fjárlaga
Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2021 var gengið út frá því að ferðamenn sem myndu koma til Íslands á því ári yrðu 900 þúsund talsins. Gangi spá Seðlabanka Íslands eftir verða þeir 20 prósent færri en fjármála- og efnahagsráðuneytið reiknað með og aðeins fleiri en heimsóttu Ísland árið 2012.
Þegar mest var, á árinu 2018, komu yfir 2,3 milljónir ferðamanna til Íslands. Þeim fækkaði niður í um tvær milljónir árið 2019 eftir að gjaldþrot WOW air setti strik í reikninginn.
Í fyrra varð svo algjört hrun í geiranum vegna kórónuveirufaraldursins sem kom um tíma í veg fyrir nær allar flugsamgöngur með farþega. Alls var fjöldi ferðamanna það árið 486 þúsund, eða um 24 prósent af því sem hann var árið 2019.
Þótt langt sé í land þangað til að þeim hæðum í fjölda ferðamanna sem hingað komu á árunum 2018 og 2019 þá mun þeim fjölga, samkvæmt spá Seðlabanka Íslands, um 48 prósent milli ára.
Loðnuveiði um helmingur endurskoðunar
Hinn skarpi samdráttur í ferðaþjónustu hefur leitt til þess að útflutningstekjur þjóðarbúsins hafa skroppið mikið saman. Þrátt fyrir öran vöxt milli ára nam útflutt þjónusta einungis 23 prósent af útfluttri þjónustu á sama ársfjórðungi 2019 og fjöldi ferðamanna var aðeins 14 prósent af fjöldanum fyrir tveimur árum.
Þessi staða vigtar inn í að hagvöxtur í ár verður, samkvæmt spá Seðlabankans, 3,9 prósent í ár. Bankinn telur þó að hagvöxtur aukist enn frekar á næsta ár og að þar vegi þyngst kröftugur vöxtur útflutnings vegna aukinna tekna af ferðaþjónustu og hagstæðari loðnu vertíðar. Samkvæmt spá bankans verður framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar jákvætt í fyrsta sinn síðan árið 2019 eða um 2,7 prósentustig og að hagvöxtur á næsta ári verði 5,1 prósent, sem er 1,2 prósentustigum meira en Seðlabankinn spáði í ágúst. Um helmingur endurskoðunarinnar má rekja til væntinga um aukna loðnuveiði.