Verðbólga mun haldast yfir 4 prósent allt árið, þrátt fyrir að nokkuð muni draga úr launahækkunum frá árinu á undan, en atvinnuleysi mun haldast undir 4 prósentum á seinni hluta ársins. Þetta kemur fram í nýrri verðspá Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Ráðamenn hika við að beita aðhaldi
Samkvæmt spánni er aðhald peningastefnunnar þessa stundina minna en ekkert, þar sem raunvextir eru neikvæðir. Enn fremur ýtir efnahagsstefna hins opinbera undir eftirspurn, þó að atvinnuleysi hafi minnkað mikið um mitt nýliðið ár og hagvaxtarhorfur séu góðar.
Stofnunin segir að reyna muni meira á stjórn efnahagsmála en venjulega á næstu mánuðum, þar sem almennir kjarasamningar renna út undir lok árs. „En ráðamenn hika við að beita efnahagslegu aðhaldi. Þeir aðhyllast sársaukaminni lausnir, eins og áminningar um ábyrgð verkalýðsfélaga og aðgerðarpakka sem eiga að koma í staðinn fyrir launahækkanir,“ bætir hún við.
Slíkar umvandanir munu líklega breyta litlu, samkvæmt stofnuninni, þar sem reynslan af kjarasamningum hérlendis sýni að kaupkröfur ráðast öðru fremur af ástandi á vinnumarkaði.
Laun og húsnæðisverð hækka hraðar
Verðspá stofnunarinnar byggir á væntingum um að meginvextir Seðlabankans hækki hægt og endi í 3,5 prósentum í lok árs, sem er svipað spám Landsbankans frá því í haust. Einnig er búist við minnkandi verðbólgu í viðskiptalöndum, líkt og alþjóðastofnanir gera ráð fyrir, auk þess sem lágmarkslaun muni hækka um 5 þúsund krónur.
Að þessum forsendum gefnum telur Hagfræðistofnun að verðbólga haldist svipuð og verið hefur út þetta ár, eða yfir 4 prósentum. Einnig er búist við að launahækkanirnar verði minni en í fyrra, en þó meiri en verðbólgan.
Til viðbótar við miklar launahækkanir telur stofnunin að húsnæðisverð, sem hún segir aðallega ráðast af vaxtastiginu, muni hækka heldur hraðar en almennt verðlag.
Stofnunin bætir einnig við fráviksspám, þar sem nokkur óvissa ríkir um verðlagsþróun erlendis, en samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) eru meiri líkur á að verðbólgan sé vanmetin heldur en ofmetin. Haldist verðbólgan í viðskiptalöndum Íslands í 5 prósentum á þessu ári mætti búast við að verðlag muni verða rétt yfir 5 prósentum hérlendis í lok ársins.