Spilarar tölvuleiks íslenska fyrirtækisins CCP, Eve Online, hafa safnað samtals 68.340 bandaríkjadölum, rúmum 8,9 milljónum króna, fyrir fórnarlömb jarðskjálftans í Nepal. Söfnun hófst þeirra á meðal um síðustu mánaðarmót og fer hún að öllu leyti fram í leiknum sjálfum. Söfnunarféð rennur óskipt til Rauða krossins á Íslandi sem stendur um þessar mundir fyrir söfnun fyrir hjálparstarfi í Nepal. Þetta kemur fram í tilkynningu frá CCP.
Þetta er í sjötta sinn sem CCP ræðst í söfnunarátak innan EVE Online leiksins í samstarfi við þá fjölmörgu spilara sem spila leikinn. Áður hafa spilarar leiksins stutt við fórnarlömb flóða í Pakistan, jarðskjálftana á Haítí, fellibylsins Katrinu í Bandaríkjunum, jarðskjálfta og flóða í Japan og fellibylsins sem skók Filipseyjar fyrir tveimur árum um alls yfir 340 þúsund bandaríkjadala, eða um 45 milljónir króna. Met var slegið í síðustu söfnun fyrir íbúa Filipseyjar þegar rúmlega 22 milljónir króna söfnuðust.
Söfnunin fer þannig fram að spilararnir greiða fé til hennar í gjaldmiðlinum PLEX, sem er annar af tveimur gjaldmiðlum EVE. Raunvirði hvers PLEX er 15 bandaríkjadalir. CCP sér síðan um að skipta gjaldmiðlinum yfir í bandaríkjadali.
Tveir stórir jarðskjálftar hafa riðið yfir Nepal síðustu vikum. Sá fyrri, sem varð í lok apríl, var upp á 7,8 á richter og varð minnst átta þúsund manns að bana
Gríðarlegt mannfall og eyðilegging
Tveir stórir jarðskjálftar hafa riðið yfir Nepal síðustu vikum. Sá fyrri, sem varð í lok apríl, var upp á 7,8 á Richter-kvarðanum og varð minnst átta þúsund manns að bana. Hann olli auk þess mikilli eyðileggingu. Sá síðari reið yfir á þriðjudag. Hann mældist 7,3 á Richter og hálftima síðar kom stór eftirskjálfti upp á 6,3 á Richter.
Eyðileggingin sem varð vegna fyrri jarðskjálftans var yfirþyrmandi. Hjálpastarf gekk framan af mjög hægt vegna erfiðra aðstæðna á vettvangi.
Drón myndband, sem var tekið af jarðskjálftasvæðinu eftir fyrri skjálftan, sýnir vel þá gríðarlegu eyðileggingu sem hann olli. Hægt er að sjá myndbandið hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=TMkRPWv4M8Y