Dagblaðið Nerikes Allehanda í Örebro í Svíþjóð fékk sent grunsamlegt bréf í pósti í dag, en það var stílað á Lars Vilks, skopmyndateiknarann sem talið er að hryðjuverkaárásin á menningarhús í Kaupmannahöfn um helgina hafi beinst að. Búið er að rýma hluta af húsnæði dagblaðsins þar sem bréfið er geymt, og þess er nú beðið að sprengjusérsveit frá Stokkhólmi komi til Örebro.
Samkvæmt umslaginu var bréfið sent frá Hannover í Þýskalandi. Inni í umslaginu virðist vera einhver harður hlutur. Upphaflegt mat lögreglunnar í Örebro var að líklega væri ekkert hættulegt á ferð, þar sem búið væri að flytja það langa leið og líklega hefðu margir handleikið það á leiðinni. Þó var ákveðið seinna að kalla til sprengjusveit frá Stokkhólmi sem er von á innan klukkustundar.
Hafin er sakamálarannsókn og samkvæmt lögreglunni í Örebro er búið að hafa samband við lögregluna í Þýskalandi til að grennslast fyrir um sendandann, og þá er búið að hafa samband við lögregluumdæmið sem hefur öryggismál Vilks með höndum, en hann er farinn í felur eftir árásirnar í Kaupmannahöfn um helgina.
Greint er frá málinu og framvindu þess á heimasíðu Nerikes Allehanda.