Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvort hún teldi ástæðu til þess að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin á ný.
Forsætisráðherra svaraði og sagði að henni þætti varasamt hjá Þorgerði Katrínu að sá þeim fræjum að varnarsamningurinn stæðist ekki tímans tönn. „Hann er fyrir hendi. Hann hefur verið uppfærður tvisvar sinnum, 2006 og svo 2016,“ sagði Katrín.
Þingmaðurinn hóf fyrirspurn sína með því að segja að það væri algjör grundvallarskylda stjórnvalda hverju sinni að verja öryggi borgaranna. „Það þarf reglubundið stöðumat og stjórnvöld þurfa að hafa bæði þor og kjark til að gera það en ekki ýta sjálfkrafa kostum út af borðinu sem geta reynst þjóðinni mikilvægir til að verja landið og tryggja öryggi borgaranna. Ég tók reyndar eftir því að forsætisráðherra taldi með öllu óþarft að tryggja viðveru varnarliðs hér á landi. Gott og vel. Það getur verið að það sé yfirlýsing ætluð til heimabrúks innan VG, en mér þykir verra að ekkert mat á samt að gera á öryggishagsmunum í þessu samhengi, að minnsta kosti hefur okkur í utanríkismálanefnd ekki verið kynnt það,“ sagði hún.
Varnarsamningurinn ekki nægilega skýr
Telur Þorgerður Katrín að meta þurfi og kortleggja hvernig öryggis- og varnarhagsmunum Íslendinga sé best borgið, hvort sem það sé í gegnum markvisst varnarstarf eða annað alþjóðlegt samstarf sem geti stuðlað að friði og öryggi.
„Þess vegna höfum við í þingflokki Viðreisnar lagt fram tillögu um alþjóðlegt samstarf í öryggis-, utanríkis- og varnarmálum. Varnarsamningurinn við Bandaríkin er einn af hornsteinum okkar Íslendinga þegar kemur að þjóðaröryggi og hann er frá árinu 1951. Aðstæður eru verulega breyttar.
Varnarsamningurinn þarf með ótvíræðum hætti að taka til netárása sem beinast gegn öryggi landsins. Hann þarf líka að taka til mikilvægis órofinna samgangna, innviða og samskipta Íslands við umheiminn á ófriðartímum, eins og birgðaflutninga, sæstrengja eða orkuöryggis. Þetta gerir samningurinn ekki í dag. Hann þarf að geyma skýr ákvæði um verkferla. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Hann þarf að geyma skýr ákvæði um verkferla og ábyrgð á töku ákvarðana, komi til þess að við þurfum að virkja aðstoð Bandaríkjanna samkvæmt samningnum. Það er ekki skýrt í dag. Það ógnar öryggi okkar Íslendinga. Og það er heldur ekki skýrt hversu langur þessi lágmarkstími þarf að vera til að aðstoð berist til landsins.“
Spurði Þorgerður Katrín forsætisráðherra hvort hún teldi ekki ástæðu til þess að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin – ekki síst þegar öryggis- og varnarhagsmunir landsins væru hafðir í huga.
Þarf að hafa marga þætti í huga þegar hugað er að öryggi borgaranna
Katrín svaraði og sagði að það væri mjög mikilvægt að Alþingi allt starfaði og ynni samkvæmt hinni samþykktu þjóðaröryggisstefnu. Einn þáttur hennar væri varnarsamningurinn við Bandaríkin. Annar þáttur væri aðildin að Atlantshafsbandalaginu en alls væri hún í tíu liðum.
„Mér finnst ástæða til að vekja máls á því, af því að þetta er eðlilega til umræðu núna, að við ræðum hvernig öryggi okkar verður sem best tryggt. Ég vil leyfa mér að segja að á undanförnum fjórum árum hefur á vettvangi þjóðaröryggisráðs verið unnið alveg gríðarlegt starf í því að fylgja eftir öllum þáttum þjóðaröryggisstefnunnar, öllum tíu þáttunum, og yfir það er farið í þessari skýrslu um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar.
Það liggur algerlega fyrir að það eru mjög margir þættir sem þarf að hafa í huga þegar við hugum að öryggi borgara okkar. Það er netöryggi, það er fjarskiptaöryggi. Þegar við horfum á þau átök sem nú eru fyrir hendi held ég að við getum algerlega óhikað metið það svo að sú áhætta felist ekki eingöngu í því sem við getum kallað hefðbundna hernaðarlega þætti heldur ekki síður í netöryggismálum, fjarskiptaöryggi og öðrum þeim þáttum sem lúta að því að við tryggjum öryggi mikilvægra innviða og að því hefur verið unnið,“ sagði forsætisráðherrann.
Katrín rifjaði upp að áhættumat hefði verið gefið út af hálfu þjóðaröryggisráðs árið 2021. „Við erum búin að ákveða á vettvangi þjóðaröryggisráðs að uppfæra það mat með hliðsjón af þessari stöðu til að geta lagt sjálfstætt mat á það hvað er mikilvægast að gera til að bregðast við. Enn fremur liggur fyrir, og það hefur komið fram, að viðbúnaðaráætlanir Atlantshafsbandalagsins fyrir öll svæði bandalagsins, svæðin eru fimm, hafa verið virkjaðar sem þýðir að þar er alls staðar sérstök viðbúnaðaráætlun í gildi og að sjálfsögðu tökum við fullan þátt í því. En næsta skref á vettvangi þjóðaröryggisráðs er að uppfæra þetta mat þannig að við getum lagt sjálfstætt mat á það hvar þörfin er í raun og veru brýnust.“
„Það er eitthvað mjög erfitt og viðkvæmt hér í gangi“
„Þetta er athyglisvert,“ sagði Þorgerður Katrín. „Forsætisráðherra, sem situr í ríkisstjórn sem meðal annars Sjálfstæðisflokkurinn er aðili að, getur ekki sagt skýrt og klárt að það eigi að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin, sem er frá árinu 1951, í ljósi þjóðarhagsmuna, þjóðaröryggis. Það segir ekki skýrt í samningnum hversu langan tíma Bandaríkjamenn hafa til að bregðast við ef við köllum eftir aðstoð. Það segir ekki skýrt þar. Svo á að skýla sér á bak við eitthvert áhættumat sem gert var hér fyrir ári síðan þegar aðstæður hafa gjörbreyst í heiminum.
Það er eitthvað mjög erfitt og viðkvæmt hér í gangi og ég vona að það sé ekki stefna Vinstri grænna sem leiðir til þess að við sýnum ekki festu og ákveðni strax í okkar viðbrögðum í því hvernig við eigum að verja okkar öryggi, treysta okkar öryggi,“ sagði hún.
Þorgerður Katrín spurði í framhaldinu hvort forsætisráðherra myndi beita sér fyrir því að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin í ljósi þess að hann geymdi skýrari ákvæði til að verja Íslendinga, ekki einungis varðandi netöryggi heldur einnig til þess að vita hversu langan tíma Bandaríkjamenn ætluðu sér til að bregðast við ef Íslendingar óskuðu eftir aðstoð þeirra í óöruggum aðstæðum.
Varasamt að sá þeim fræjum að varnarsamningurinn standist ekki tímans tönn
Katrín svaraði í annað sinn og sagði að spurning þingmannsins kæmi henni meira á óvart en hennar eigin svör.
„Mér finnst varasamt hjá háttvirtum þingmanni að vera að sá þeim fræjum hér að varnarsamningurinn standist ekki tímans tönn. Hann er fyrir hendi. Hann hefur verið uppfærður tvisvar sinnum, 2006 og svo 2016, og það er ekki bara mitt mat sem formanns þjóðaröryggisráðs, sem háttvirtur þingmaður vill helst reyna að láta líta tortryggilega út, heldur mat ríkisstjórnarinnar að á þessu sé ekki þörf, þetta sé algerlega skýrt sem og aðildin að Atlantshafsbandalaginu sem einnig er kveðið á um í þjóðaröryggisstefnunni.
Ég held því að hér sé háttvirtur þingmaður að grípa til ákveðinna mælskubragða. Ég held að ekki sé ástæða til að grípa til slíkra mælskubragða þegar ástandið í heiminum er jafn alvarlegt og raun ber vitni. Ég held að engin ástæða sé til að koma hér upp og reyna að láta líta svo út að íslensk stjórnvöld séu ekki að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi íslenskra borgara um leið og við leggjum það af mörkum sem við getum til að koma í veg fyrir þær hörmungar sem fólkið í Úkraínu stendur frammi fyrir. Við erum að beita okkur með mannúðaraðstoð og öðrum þáttum,“ sagði hún.
Forsætisráðherra lauk svari sínu á að segja að samstaðan sem hefði verið á þingi væri eitthvað sem þau ættu að reyna að halda í þegar ástandið væri jafn alvarlegt og raun ber vitni.