Þingflokkur Pírata hyggst leggja fram þingsályktunartillögu um að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir viðurkenningu á vistmorði. Þetta kom fram í máli Andrésar Inga Jónssonar þingmanns flokksins í ræðu hans undir liðnum störf þingsins á Alþingi í síðustu viku.
„Þessa dagana berast okkur fréttir af stríði austast í Evrópu. Þá reikar hugurinn til þess kerfis sem við höfum til að taka á brotum sem eiga sér stað við þær aðstæður. Það er eitthvað sem við erum alltaf að þróa og móta og reyna að gera betur,“ sagði hann.
Lengi verið kallað eftir því að vistmorð verði viðurkennt brot
Benti Andrés Ingi á að hægt væri að vísa hinum ýmsu brotum til Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag; glæpum sem taldir eru ógna friði, öryggi og velferð í heiminum. „Þetta eru stærstu glæpirnir; hópmorð, glæpir gegn mannúð, stríðsglæpir og glæpir gegn friði. Það hefur lengi verið kallað eftir því að víkka út umboð dómstólsins þannig að glæpurinn vistmorð verði viðurkenndur sem eitt af þeim brotum sem hægt er að leita til dómstólsins með.“
Spurði hann í framhaldinu til hvaða ráða almenningur gæti gripið þegar ákall um aðgerðir strax skiluðu engum viðbrögðum frá stjórnvöldum. „Hver á að verja móður jörð fyrir óheftri græðgi stórfyrirtækja sem vilja gjörnýta auðlindir og önnur náttúrugæði? Það þarf að tryggja fólki sem tekur að sér að berjast fyrir þessum sameiginlegu hagsmunum okkar allra möguleika til að leita til dómstóla með þau efni.“
Evrópskur dagur fyrir viðurkenningu á vistmorði
Andrés Ingi benti á að á morgun, sunnudag, væri evrópskur dagur fyrir viðurkenningu á vistmorði. Greindi hann jafnframt frá því að þingflokkur Pírata myndi gera tvennt til að minnast þess dags. Þau myndu halda málþing á Kjarvalsstöðum í hádeginu á mánudaginn næstkomandi þar sem þau fá erlenda sérfræðinga til að fara yfir þessi mál og, eins og fram hefur komið, leggja ennfremur fram þingsályktunartillögu um að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir viðurkenningu á vistmorði.
Þingmaðurinn hvatti alla þingmenn til að skoða þessa tillögu og gerast meðflutningsmenn.