Seinagangur ríkisstjórnarinnar í að framlengja viðspyrnustyrki og önnur sambærileg úrræði vegna faraldursins og sóttvarnaraðgerða gegn honum vekur upp spurningar hvort ríkisstjórnin reyni að knýja fram samþjöppun í ferðaþjónustu. Þetta kemur fram í minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um framlengingu lagafrumvarps um viðspyrnustyrki, sem birt var á vef Alþingis í gær.
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar er framsögumaður álitsins, en að því standa einnig Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins.
Samkvæmt þeim eru áhyggjur um að stjórnvöld stefni að því að fækka fyrirtækjum í ferðaþjónustu og auðvelda stærstu fyrirtækjunum að kaupa upp þau smærri skiljanlegar, þar sem tveir ráðherrar hafi sterk tengsl við tvö af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins. Jóhann Páll, Þórhildur Sunna og Ásthildur Lóa bæta svo við að þessi fyrirtæki hafi notið gríðarlegs ríkisstuðnings í heimsfaraldrinum.
Minnihlutinn leggur því til að lagafrumvarpið um viðspyrnustyrki verði breytt þannig að það nái til fleiri fyrirtækja sem orðið hafa fyrir miklu tjóni vegna veirunnar og sóttvarnaragðerða. Þó leggur hann einnig til að styrkjunum verði einungis beint til fyrirtækja sem þurfa á þeim að halda og fara eftir lögum og reglum.
Á meðal tillagna er að lágmarkstekjufall fyrirtækja sem fá styrkinn verði lækkað úr 40 prósentum niður í 30 prósent og að umsóknarfrestur fyrir þennan styrk renni ekki út fyrr en í lok júní.
Einnig leggja Jóhann Páll, Þórhildur Sunna og Ásthildur Lóa til að skilgreiningum á tekjum yrði breytt, svo fyrirtæki sem hafa einungis fengið minni tekjur vegna fjármagnshreyfinga en ekki samdráttar í sölu geti ekki nýtt sér styrkinn. Þar að auki ættu fyrirtæki sem hafa orðið uppvís að launaþjófnaði eða ekki staðið skil af skattframtali ekki að geta fengið styrkinn.
Uppfært 15:42: Öllum tillögum þingmannanna þriggja var hafnað á Alþingi í dag með 31 atkvæði.