Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks sem sóttist eftir sæti ofarlega á lista flokksins í prófkjöri fyrr á þessu ári en hlaut ekki erindi sem erfiði, gagnrýnir flokkinn harðlega í grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Vilhjálmur að hann hafi nú lokið afskiptum að stjórnmálum og það gefi honum færi á að láta ýmislegt frá sér fara eftir að hafa spurt sig áleitinna spurninga. „Fyrsta spurningin er sú hvort hin „lýðræðislega“ aðferð prófkjöra hafi skilað sigurstranglegum framboðslistum? Horfandi á mál utan frá og spurt þá sem ekki eru innmúraðir, segja kjósendur: Þetta fólk höfðar ekki til mín! Þetta fólk hefur enga skírskotun til mín! Þetta fólk hefur orðið til í kosningamaskínunni inni í Sjálfstæðisflokknum! Engin skírskotun til almennra kjósenda!“
Hann segir að fjölbreytni hafi verið úthýst úr Sjálfstæðisflokknum og að spyrja mætti hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé að verða eins máls flokkur þar sem „hagkvæmni“ fiskveiðistjórnarkerfisins ræður för?
„Forysta flokksins tók þá afstöðu árið 2014, eftir að hafa lofað „þjóðaratkvæðagreiðslu“ um aðild að Evrópusambandinu, að afturkalla aðildarumsókn, sem að öðru leyti lá í svefni og skaðaði engan. Þetta leiddi til þess að stór hópur í atvinnurekendaliði Flokksins sagði skilið við Flokkinn og gekk til liðs við nýjan smáflokk! Góð leið til að minnka stjórnmálaflokk! Það er einnig góð leið til að minnka flokk að viðhalda óskiljanlegri umræðu um fullveldi á plani frá 1918! Hvernig má það vera að flokkur, sem var með 40% kjörfylgi, telur það ásættanlegt að fá 25% kjörfylgi?“
Segir Pírata á rófinu og Samfylkingarfólk leiðinlegt
Vilhjálmur gagnrýnir líka aðra flokka á Alþingi, sem hann skiptir upp í smáflokka og kerfisflokka. Hann segir Miðflokkinn vera eins manns flokk án málefnis. Í slíkri trúarhreyfingu sé algild trú á hinn óskeikula foringja „þar sem orðaflaumurinn gusast út eins og tómatsósa, en að öðru leyti algerlega innihaldslaust blaður.“
Píratar hafi orðið til vegna ofurtrúar á að „ný stjórnarskrá“ dragi úr „spillingu“. „Meðlimir þess flokks virðast flestir hverjir vera á einhverju rófi sem engir skilur, ekki einu sinni þeir sjálfir.“
Samfylkinguna segir hann hafa eðli Kvennalista, án allrar útgeislunar. „Einskis máls flokkur! Að auki, þeir sem tala fyrir þessa fylkingu eru fjandanum leiðinlegri og skapvondir.“
Vilhjálmur talar af hæðni um allt hugsjónarfólkið í Vinstri grænum, sem fari svo í aðra flokka þegar það fær ekki allt sem það krefst.
Grunsemdir um hagsmunaárekstra
Vilhjálmur er ekki eini maðurinn sem setið hefur á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur gagnrýnt hann í aðdraganda kosninga. Páll Magnússon, sem enn er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti hans í Suðurkjördæmi en mun ekki vera í framboði í haust, skrifaði grein í Morgunblaðið í júlí. Þar sagði hann að ásamt klofningi, væri meginvandi flokksins í dag víðtækur trúverðugleikabrestur. „Og vandinn er djúpstæðari en svo að það verði tekist á við hann með því að yppta öxlum, tala um breytta tíma og búa til nokkur 30 sekúndna myndbönd fyrir kosningar.“
Það sem hann nefndi helst sem ástæðu fyrir trúverðugleikabrestinum voru viðvarandi grunsemdir um hagsmunaárekstra sem Páll sagði að lægju eins og þokumistur yfir flokknum. „Tveir augljósustu hlutarnir af þessari grunsemdaþoku eru auðvitað annars vegar þær stöðugu ásakanir sem formaður flokksins má þola vegna eigin umsvifa og fjölskyldu hans í viðskiptalífinu – afskrifta og aflandsreikninga – og svo fullyrðingar um skaðlega hagsmunaárekstra vegna náinna tengsla sjávarútvegsráðherra við Samherja.“
Þó ekki væri hægt að sýna fram á að hagsmunaárekstrar hefðu orðið hjá ráðherrunum tveimur, Bjarna Benediktssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, breytti það engu um að grunsemdirnar sætu sem fastast. „Segja má að í tilviki fjármálaráðherra sé lítið við því að gera; hann stundaði þau viðskipti sem hann stundaði – sama gerðu aðrir í hans fjölskyldu – svo gera menn bara upp við sig hvort þeir treysta honum eða ekki. Og flestir Sjálfstæðismenn treysta honum og hafa kosið sér hann sem formann hvað eftir annað. Öðru máli gegnir um sjávarútvegsráðherra. Það er auðvitað hreint sjálfskaparvíti forystu flokksins að hafa ekki valið þeim mæta manni annað ráðuneyti en einmitt þetta. Þessi ráðstöfun hefur skaðað Sjálfstæðisflokkinn og ráðherrann sjálfan – og skemmt fyrir þeirri viðleitni að skapa meiri sátt um sjávarútveginn.“