„Að okkar mati þarf að endurvekja umsóknina algjörlega,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aðspurður um hvort Evrópusambandsumsókn Íslands sé ekki gild lengur og hvort það þurfi að byrja umsóknarferli upp á nýtt ef Ísland á að ganga í Evrópusambandið. Það sé ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ríkisstjórn sem væri á móti aðild eigi að halda áfram umsókn að Evrópusambandinu. Slíkt væri „undarlegt“.
Sú staða sem væri uppi í þessum málum í dag væri „fáránleg“. Hins vegar væri hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þjóðin eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Síðasta ríkisstjórn hafi ekki þorað því. Þetta kom fram í viðtali við hann í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í dag.
Bréf stjórnarandstöðunnar "brandari"
Í þættinum kallaði hann bréfið sem stjórnarandstaðan sendi til Evrópusambandsins „brandara“ sem væri fullur af rangfærslum. Stjórnarandstæðan virðist vera að gleyma því að hún sé ekki lengur í ríkisstjórn, að sögn Gunnars Braga. „Er það ekki valdarán að senda bréf út til Evrópusambandsins sem er fullt af vitleysu og er beinleiðis rangt?“, sagði Gunnar Bragi með vísan í ásakanir um að ríkisstjórnin væri að fremja valdarán með því að taka ákvörðun sem ekki væri lögð fyrir þing, utanríkismálanefnd eða þjóðina.
Það væri mat ríkisstjórnarinnar að það þyrfti ekki að fara með aðildarlokin fyrir þingið og utanríkismálanefnd. „Okkur fannst einfaldlega tími til að ganga í málið gagnvart Evrópusambandinu“, sagði Gunnar Bragi og átti þar við að gera sambandinu ljóst hver afstaða þessarar ríkisstjórnar sé.
Í yfirlýsingu frá skipuleggjendum mótmælenda sem fram fóru á Austurvelli fyrr í dag, og um sjö þúsund manns mættu á, sagði: „Ríkisstjórn Íslands hefur lítilsvirt lýðræðið í landinu og ber því tafarlaust að segja af sér. Hingað og ekki lengra!"
Segir ásökun Valgerðar "fáránlega"
Gunnar Bragi sagði ásakanir Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrum formanns Framsóknarflokksins, um að tillagan til að draga umsóknina til baka hafi verið samda utanflokks vera „fáránlega“. Afstaða hennar og Jóns Sigurðssonar, annars fyrrum formanns Framsóknarflokksins sem hefur gagnrýnt ákvörðunina, í Evrópusambandsmálum hafi lengi legið fyrir.
Gunnar Bragi sagði það alltaf vera vont ef stjórnmál væru í endalausum átökum. Það væri hins vegar ekkert óeðlilegt að takast á. Þau samræðustjórnmál sem reynd hafi verið á síðasta kjörtímabili hafi ekki staðið undir því að bæta umræðuhefðina í stjórnmálum. Stjórnarandstöðuflokkarnir, „meðal annars þessi Björt framtíð“ séu síðan að haga sér nákvæmlega eins og þeir áður gagnrýndu.
Öfundsýki út í Kaupfélag Skagfirðinga
Björn Ingi Hrafnsson, stjórnandi þáttarins, spurði Gunnar Braga síðan um áhrif valdamikilla manna í Skagafirði á stjórn landsins og umræðuna um "skagfírska efnahagssvæðið". Gunnar Bragi sagði þessa umræðu stjórnast af öfundsýki út í hið sterka fyrirtæki Kaupfélag Skagfirðinga.
Fylgi Framsóknar hefur verið í frjálsu falli undanfarin misseri og mælist nú um tiu prósent. Flokkurinn fékk 24,4 prósent í síðustu kosningum. Gunnar Bragi sagði fylgið í könnunum vera að dala vegna þess að flokkurinn sé óhræddur við að takast á við erfið mál. Meðal þeirra væru leiðrétting á verðtryggðum húsnæðislánum og Icesave-málið. Hann hefur hins vegar ekki áhyggjur af skoðanakönnunum og flokkur hans ætlar ekki að gerast popúlískur flokkur á borð við Samfylkinguna.