Útgafa og sala á leigu- og sölumyndböndum hefur hrunið frá síðustu aldarmótum. Sala leigumynda, mynddiska og myndbanda, frá útgefendum til myndaleiga hefur dregist saman um 98 prósent. Sambærilegur samdráttur hefur verið í útleigu á myndum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Hagtölur hafa því staðfest það sem flestir hafa lengi fundið á sér, videóleigubransinn er dauður.
Í frétt Hagstofunnar segir einnig að sala „slíkra mynda frá útgefendum til smásala hefur dregist saman um meira en helming á undanförnum árum. Engum vafa er undirorpið að samdráttar á leigu- og sölumyndamarkaði er að rekja til stóraukins framboðs sjónvarpsefnis og nýrra miðlunarleiða á myndefni yfir Netið.“
Í fyrra voru gefnir út 571 titlar leigu- og sölumynda hérlendis. Þar af voru sölumyndir 434 en leigumyndir einungis 137 talsins. Fjöldi útgefinna sölumynda hefur dregist saman um þriðjung frá árinu 2011, þegar salan náði sínum hæstu hæðum. Útgáfa leigumynda hefur dregist stanslaust saman frá árinu 2004.
Hrun í sölu á DVD
Fjöldi útleigðra diska í fyrra var áætlaður 250 þúsund. Árið 2001 var áætlaður fjöldi útleigðra mynddiska og vídeóspóla um 2,9 milljónir eintök. Í frétt Hagstofunnar segir: „Miðað við áætlaða útleigu árið 2014 má gera ráð fyrir að hver einstaklingur hafi leigt sér mynd einu sinni, samanborðið við milli tíu til ellefu sinnum þegar best lét um og upp úr aldamótunum síðustu. Inni í tölum um útleigu er hvorki leiga á myndum á vegum myndveita (Video-on-Demand) um síma og í sjónvarp eða á vegum annarra myndveita yfir Netið.“
Í fyrra nam sala sölumynda á vegum útgefenda slíkra, aðallega á DVD-formi, um 430 þúsund eintökum. Það er töluvert færri en þau 910 þúsund eintök sem seld vöru frá smásölum til útgefenda árið 2008.