Capital Group, sem er fjórði stærsti eigandi Íslandsbanka, hefur selt 0,11 prósent hlut í bankanum og á nú 4,92 prósent hlut. Við söluna fer eignarhluturinn undir fimm prósent og salan því tilkynningarskyld til Kauphallar.
Capital Group er á meðal tveggja erlendra sjóða sem voru valdir til að kaupa hlut í Íslandsbanka í aðdraganda almenns útboðs á hlutum í bankanum i fyrra, en hann var í kjölfarið skráður á markað. Hinn sjóðurinn, RWC Asset Management, hafði selt þorra eignar sinnar í Íslandsbanka um síðustu áramót og leyst um leið út umtalsverðan hagnað. Capital Group hafði hins vegar verið að bæta jafnt og þétt við sig eignarhlutum. Sjóðurinn átti 3,8 prósent hlut í fyrrasumar en var kominn upp í 5,06 prósent í lok mars síðastliðins.
Báðir sjóðirnir voru á meðal þeirra sem fengu að taka þátt í lokuðu útboði á hlutum í Íslandsbanka í mars síðastliðnum, þegar 207 fjárfestar voru valdir til að kaupa 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka með fjögurra prósenta afslætti af markaðsvirði. RWC Asset Management fékk að kaupa hluti fyrir tæplega tvo milljarða króna og Capital Group keypti fyrir rúman milljarð króna.
Hluturinn hefur hækkað um sjö milljarða
Sá hópur fjárfesta sem var valinn til að taka þátt í lokaða útboðinu á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka borgaði 117 krónur fyrir hvern hlut. Heildarupphæðin var, líkt og áður sagði, 52,65 milljarðar króna. Það var rúmlega fjögur prósent undir skráðu gengi bankans á þeim tíma og afslátturinn rökstuddur með því að það væri alvanalegt alþjóðlega þegar stór hlutur í skráðu félagi væri seldur með tilboðsfyrirkomulagi að gefa afslátt.
Við lokun markaða á föstudag var gengi bréfa í Íslandsbanka 132,4 krónur, eða um 13 prósent yfir því verði sem hópurinn fékk að kaupa á í mars. Virði þess hlutar sem var seldur er nú því 59,6 milljarðar króna, eða um sjö milljörðum krónum meiri en það var í mars.
Ljóst er að hluti þeirra sem tóku þátt í útboðinu hafa þegar selt hlutina sína með hagnaði. Þar á meðal eru margir erlendir fjárfestar sem tóku líka þátt í almenna útboðinu í fyrra, og seldu sig hratt niður í kjölfar þess. Nokkrum vikum eftir útboðið lá fyrir að að minnsta kosti 34 fjárfestar hefði selt og að nöfn 60 fjárfesta birtust ekki á hluthafaskrá af ýmsum ástæðum.
Hluthöfum hefur fækkað um 40 prósent
Ríkið hóf að selja hluti í Íslandsbanka í fyrra, þegar 35 prósent hlutur var seldur, og bankinn var skráður á markað í júní 2021. Þá voru hluthafar í bankanum 24 þúsund talsins. Í almennu útboði sem fór fram í aðdraganda skráningar var þátttaka almennings mikil enda þótti útboðsgengið, 79 krónur á hlut, vera afar lágt miðað við efnahagsreikning bankans og stöðu mála á hlutabréfamarkaði á þeim tíma. Á fyrsta degi viðskipta hækkaði verðið enda um 20 prósent og í dag er það 68 prósent hærra en það var í útboðinu.
Þegar Íslandsbanki birti uppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins 2022 í lok síðasta mánaðar kom fram að hluthafar í bankanum séu nú 14.300 talsins. Þeim hefur því fækkað um 9.700 frá því í júní í fyrra, eða um 40 prósent. Kaupendur af þorra þeirra bréfa sem seld hafa verið eru íslenskir lífeyrissjóðir, í eigu íslensks almennings, sem eiga að minnsta kosti samanlagt um 28 prósent hlut í bankanum.