SABMiller hefur samþykkt sölu fyrirtækisins til Anheuser-Busch InBev (AB InBev) fyrir 104 milljarða Bandaríkjadala, eða sem samsvarar um þrettán þúsund milljörðum íslenskra króna. Ef af verður munu viðskiptin vera stærsta yfirtaka á bresku fyrirtæki nokkru sinni.
Með samrunanum verður til bruggrisi sem framleiðir um einn þriðja af öllum bjór í heiminum. AB InBev var þegar stærsta bruggfyrirtæki heimsins, og SABMiller er helsti keppinauturinn. Stjórnir fyrirtækjanna tveggja segja nú að þær hafi náð samkomulagi í meginatriðum um mögulega sölu, en málið hefur verið í vinnslu um nokkra hríð. Þetta er sjötta tilraun AB InBev til að kaupa keppinautinn, en þeirri síðustu var hafnað í gær. Samkvæmt SABMiller hafa nú verið boðin 44 bresk pund fyrir hlut, sem er 50% meira en virði bréfa í fyrirtækinu var metið á um miðjan september.
Samhliða þessum vendingum var ákveðið að framlengja frest sem AB InBev hefur til þess að gera formlegt tilboð til 28 október næstkomandi, en fresturinn átti að renna út á morgun. Með þessu móti geti félögin komist að nánara samkomulagi. Einnig hefur verið ákveðið að AB InBev greiði þriggja milljarða dala gjald ef samruninn verður ekki, ýmist vegna samkeppnissjónarmiða eða vegna þess að hluthafar í ABInBev setji sig upp á móti kaupunum.