Tæplega 82 prósent þeirra fjármuna sem embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur á síðustu sex mánuðum greitt almannatengslafyrirtækinu KOM var greitt vegna svokallaðs lekamáls. Alls fékk KOM greitt 828.750 krónur greitt vegna sérfræðiþjónustu í tengslum við samantekt Geir Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, og Lekamálið. Þar af voru 678.750 krónur greiddar vegna ráðgjafar vegna lekamálsins en 150 þúsund krónur vegna samantektar Geir Jóns.
Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, um kostnað
við fjölmiðlaráðgjöf fyrir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn greindi frá því hver heildargreiðsla lögregluembættisins til KOM var í mars síðastliðnum. Kostnaðurinn sem KOM fékk greitt vegna ráðgjafar í tengslum við lekamálið var þríþættur. Í lok nóvember 2014 fékk fyrirtækið 243.750 krónur greiddar, í lok desember 367.500 krónur greiddar og þann 25. febrúar 67.500 krónur greiddar. Síðasta greiðslan er greidd í sömu viku og Persónuvernd birti skýrslu þar sem alvarlegar athugasemdir voru gerðar við miðlun Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, á persónuupplýsingum um hælisleitandann Tony Omos til Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Niðurstaðan var að lög hafi verið brotin.