Auto Trader, bresk vefsíða sem selur nýja og notaða bíla á netinu, heldur hlutafjárútboð í dag samhliða því að fyrirtækið verður skráð á markað.
Í tilkynningu frá Auto Trader vegna skráningarinnar kemur fram að verð á hlut í útboðinu sé 235 pens, sem þýðir að heildarvirði þeirra hluta sem eru boðnir til sölu er 2,4 milljarðar punda, eða 490 milljarðar króna. Um er að ræða 59 prósent hlutafjár í fyrirtækinu og því er heildarvirði þess, miðað við hlutafjárútboðið, um 830 milljarðar króna. Business Insider greinir frá.
Auto Trader einbeitir sér einvörðungu að bílasölu í Bretlandi og Írlandi. Vörumerkið fyrirtækisins er eitt það þekktasta í breska bílaiðnaðinum, en í könnun sem HPI Brand Tracker framkvæmdi í lok síðasta árs kom fram að 92 prósent aðspurðra Breta þekktu Auto Tracker og vissu hvernig þjónustu fyrirtækið veitir.
Auto Trader breytti um stefnu sumarið 2013 og var eftir það einvörðungu stafrænt markaðstorg. Áður hafði fyrirtækið rekið bílasölur. Þessi breyting hefur skilað sér í gríðarlegri aukningu á markaðshlutdeild í bílasölu á markaðssvæði Auto Trader.