Matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) tilkynnti í dag um breytta lánshæfiseinkunn Landsbankans, Arion banka, Íslandsbanka og hjá tryggingafélaginu TM. Jákvæðar breytingar á einkunnum þessara fyrirtækja eru gerðar í kjölfar nýs mats matsfyrirtækisins á einkunn Ríkissjóðs Íslands sem birt var síðasta föstudag. Þá var lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs til langs tíma hækkuð frá BBB- í BBB.
Fyrirtækin þrjú tilkynntu um betri lánshæfiseinkunn til Kauphallar í morgun. Einkunn TM fer úr BBB- í BBB, rétt eins og hjá Ríkissjóði, með stöðugum horfum. Hjá öllum bönkunum þremur hækkar einkunnin í BBB- sem telst vera fjárfestingarflokkur. Bankastjórar Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans fagna allir hærri einkunnum. S&P metur stöðu bankanna batnandi, eiginfjár- og lausafjárstöður séu sterkari, áhætta sé minni og að íslenskt efnahagslíf standi traustari fótum.
Hér fyrir neðan má lesa viðbrögð bankastjóranna við breyttu lánshæfismati, eins og þau birtast í fréttatilkynningum frá Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum.
„Það er mikilvægt fyrir okkur og okkar viðskiptavini að bankinn skuli vera kominn í fjárfestingarflokk. Bankinn hefur haft góðan aðgang að erlendri fjármögnun eins og 300 milljóna evra og 500 milljóna norskra króna skuldabréfaútgáfur bankans fyrr á þessu ári bera vott um. Hins vegar stækkar hópur mögulegra fjárfesta til muna nú þegar bankinn er kominn í fjárfestingarflokk. Þannig getum við styrkt fjármögnun bankans enn frekar með það að markmiði að lækka fjármögnunarkostnað. Aukið aðgengi að erlendum fjármagnsmörkuðum gerir okkur betur í stakk búin til þess að þjónusta viðskiptavini okkar sem þurfa á erlendri fjármögnun að halda,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
"Þessi niðurstaða er í takt við væntingar okkar í ljósi hækkunar á lánshæfismati íslenska ríkisins. Það er ánægjulegt að fá viðurkenningu á þeim árangri sem hefur náðst, bæði í íslensku efnahagslífi sem og í endurskipulagningu lánasafns bankans. Lánshæfismat í fjárfestingarflokk frá Fitch og nú Standard & Poor's mun hafa jákvæð áhrif á aðgengi okkar að erlendu fjármagni og gera okkur kleift þjónusta viðskiptavini okkar enn betur og uppfylla framtíðarsýn bankans um að vera númer 1 í þjónustu," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
„Nýtt mat Standard & Poor’s er ánægjuleg tíðindi og í takt við væntingar, m.a. í kjölfar fréttar um bætta lánshæfiseinkunn ríkisins. Matið sýnir að staða bankans er sterk og að hann sé á réttri leið. Það að Landsbankinn sé nú kominn upp í fjárfestingarflokk eykur traust til bankans á mörkuðum og styður við fjármögnun hans í nánustu framtíð, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.