Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard&Poor´s segir að það muni taka mörg ár að afnema höft á Íslandi. Fyrirtækið telur ýmsar aðrar áhættur í vegi íslenskra stjórnvalda sem gætu haft mikil áhrif á ríkisfjármálin á næstunni. Ein þeirra er fjármögnun skuldaniðurfellingar á verðtryggðum skuldum úr ríkissjóði. Þetta kemur í nýju mati þess á lánshæfiseinkunnir Ríkissjóðs Íslands sem birt var á föstudag.
Í matinu eru lánshæfiseinkunnir fyrir Ríkissjóð Íslands staðfestar sem BBB- fyrir langtímaskuldbindingar og A-3 fyrir skammtímaskuldbindar. Horfur eru áfram jákvæðar.
Áhyggjur af fjármögnun „Leiðréttingarinnar“
Þrátt fyrir jákvæðar horfur koma fram töluverðar áhyggjur af íslensku efnahagslífi í mati Standard&Poor´s. Á meðal þess sem fyrirtækið tiltekur sem áhættu er fjármögnun á skuldaniðurfellingum á verðtryggðum skuldum samkvæmt hinni svokölluðu „Leiðréttingu“, sem hrint hefur verið í framkvæmd. Í skýrslu Standar&Poor´s segir að helmingur þeirra 160 milljarða króna (sem fara annað hvort beint í skuldaniðurfellingu eða í notkun á séreignarlífeyrissparnaði sem er ráðstafað inn á húsnæðislán) þá sé helmingur upphæðarinnar beint fjármagnaður af ríkissjóði. Þorri þeirrar upphæðar, um 80 milljarðar króna, sem á að renna til þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán árið 2008 og 2009, er fjármögnuð með bankaskatti sem lendir af mestum þunga á þrotabúum föllnu bankanna.
Fjármögnun skuldaniðurfellingaaðgerðar ríkisstjórnarinnar, í gegnum ríkissjóð, er áhættuþáttur að mati Standard&Poor´s.
Í skýrslu Standard&Poor´s segir að kröfuhafar þeirra gætu höfðað málsóknir vegna þessa skatts sem gæti leitt til þess að ríkissjóður myndi ekki fá allar þær tekjur vegna bankaskattsins sem hann hefur ætlað sér.
Aðrar áhættur sem fyrirtækið nefnið eru aukin kostnaður ríkissjóðs vegna komandi kjarasamninga og þörf ríkissjóðs til að styðja við Íbúðalánasjóð.
Mun taka mörg ár að afnema höft
En mesta óvissan sem íslenskt efnahagskerfi er að glíma við er, að mati Standard&Poor´s, varðandi losun fjármagnshafta. Í skýrslunni segir að „lyfting eða losun fjármagnshafta felur í sér áhættu á miklu útflæði fjármagns. Umfang og hraða þess útflæðis er erfitt að spá fyrir um“.
Síðan er rakið að íslensk stjörnvöld hafa stigið skref í átt að losun hafta að undanförnu, meðal annars með samkomulagi um breytingu a skuldum Landsbankans og skipan framkvæmdastjórnar og ráðgjafahóps um losun hafta í júlí 2014. Þrátt fyrir þessi skref, og digurbarklegar yfirlýsingar ráðamanna um að stór skref verði stíginn á þessu ári í átt að frekari losun hafta, telja Standard&Poor´s að „það muni taka mörg ár að afnema höftin að fullu“. Ástæðan er að áætlað útflæði fjármagns, bæði í eigu erlendra aðila og íslenskra aðila sem vilja komast annað með fjárfestingar sínar, sé miklu hærri upphæð en það sem Seðlabanki Íslands eigi í gjaldeyrisforða.