Starfsfólk Barnaverndarstofu styður endurskoðun á grundvallarstoðun barnaverndarkerfisins, vísar ummælum Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra um annað á bug og vill einnig láta í ljós vonbrigði sín með að Eygló hafi ekki „leiðrétt leiðrétt alvarlegar rangfærslur sem birtust í Fréttablaðinu miðvikudaginn 1. október þess efnis að „engin viðmið séu til um hvað sé góð barnavernd“ og að gæðastaðla skorti". Starfsfólkið „vísar því einnig á bug að samráð hafi verið haft í tengslum við endurskoðun á fyrirkomulagi barnaverndar og félagsþjónustu og skipan starfshóps sem vinna á það verk. Staðreyndin er sú að ráðuneytið hefur aldrei upplýst starfsfólk Barnaverndarstofu um að breytingar væru fyrirhugaðar á verkefnum stofunnar og um hugsanlega niðurlagningu hennar". Þetta kemur fram í harðorðaðri yfirlýsingu sem starfsfólk Barnaverndarstofu sendi frá sér rétt í þessu og var samþykkt einróma. Yfirlýsingin er birt í heild sinni hér að neðan.
Yfirlýsing frá starfsfólki Barnaverndarstofu 10. október 2014.
Að gefnu tilefni ítrekar starfsfólk Barnaverndarstofu að það styðji endurskoðun á grundvallarstoðum barnaverndarkerfisins. Starfsfólkið vísar því á bug ummælum sem fram koma í pistli ráðherra sem birtist á Eyjunni miðvikudaginn 8. október sl. Þar segir að þann 3. október hafi starfsfólk stofunnar brugðist „hart við hugmyndum um umfangsmikla endurskipulagningu á stjórnsýslu barnaverndarstarfs og félagsþjónustu“.
Starfsfólk Barnaverndarstofu vill einnig láta í ljós vonbrigði með að ráðherra hafi ekki leiðrétt alvarlegar rangfærslur sem birtust í Fréttablaðinu miðvikudaginn 1. október þess efnis að „engin viðmið séu til um hvað sé góð barnavernd“ og að gæðastaðla skorti. Ítrekar starfsfólkið því fyrri yfirlýsingu hvað þetta varðar.
Starfsfólk Barnaverndarstofu vísar því einnig á bug að samráð hafi verið haft í tengslum við endurskoðun á fyrirkomulagi barnaverndar og félagsþjónustu og skipan starfshóps sem vinna á það verk. Staðreyndin er sú að ráðuneytið hefur aldrei upplýst starfsfólk Barnaverndarstofu um að breytingar væru fyrirhugaðar á verkefnum stofunnar og um hugsanlega niðurlagningu hennar. Í óformlegum munnlegum samskiptum ráðuneytis við forstjóra Barnaverndarstofu kom fram að ráðherra óskaði ekki eftir fulltrúum frá Barnaverndarstofu í starfshópinn. Síðar var rætt óformlega við forstjóra stofunnar að Barnaverndarstofa legði hópnum til starfsmann. Formlegar upplýsingar um þetta bárust ekki Barnaverndarstofu fyrr en rétt fyrir hádegi 3. október sl., eftir að yfirlýsing starfsfólks hafði verið birt í fjölmiðlum. Þrátt fyrir að Barnaverndarstofa hafi leitað eftir því hafa ekki fengist upplýsingar um það frá ráðuneyti hvaða hlutverki umræddur starfsmaður á að sinna. Til dæmis er ekki ljóst hvort hann fær að sitja fundi starfshópsins.
Starfsfólk Barnaverndarstofu furðar sig á ummælum ráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 mánudaginn 6. október sl. um að starfsfólk Barnaverndarstofu ætti að hafa frumkvæði að því að koma að stefnumótunarvinnu á vegum ráðuneytisins sem varðar börn og velferð þeirra. Eðlilegast hefði verið að ráðherra hefði óskað eftir að stofan tilnefndi fulltrúa í hóp til að móta fjölskyldustefnu og til að sitja í velferðarvaktinni. Það var gert með aðra fulltrúa í umræddum hópum eins og kemur fram á heimasíðu velferðarráðuneytisins. Fjarvera Barnaverndarstofu í þessari vinnu sem og í vinnu varðandi nýja framkvæmdaáætlun í barnavernd og starfshópi um endurskoðun barnaverndarmála er óeðlileg í ljósi þess að stofan hefur þær lögbundnu skyldur að vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og vera ráðherra til ráðgjafar í málum sem tengjast barnavernd.
Áréttar starfsfólk Barnaverndarstofu því áhuga sinn og vilja til að koma formlega að stefnumótunarvinnu sem tengist barnaverndarstarfi.
Samþykkt einróma á fjölmennum fundi starfsmanna Barnaverndarstofu 10. október 2014.